Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Lokaumferðin: Falla Reynismenn og vinna Grindvíkingar?
Föstudagur 28. september 2007 kl. 09:54

Lokaumferðin: Falla Reynismenn og vinna Grindvíkingar?

Síðasta umferðin í 1. deild karla í knattspyrnu fer fram í dag og hefjast allir leikir umferðarinnar kl. 17:15. Grindvíkingar geta í dag tryggt sér sigur í deildinni en Reynismenn berjast fyrir sæti í deildinni að ári og horfurnar eru miður góðar. Njarðvíkingar mæta Stjörnunni í Garðabæ en bæði lið eru örugg með sitt sæti í 1. deild.

 

Grindavík mætir Fjarðabyggð fyrir austan en fyrir leikinn er víst að Fjarðabyggð mun ljúka sumrinu í 5. sæti deildarinnar. Fjarðabyggð hefur 34 stig en í 4. sæti eru Eyjamenn með 41 stig og í 6. sæti er Leiknir með 22 stig. Grindavík hefur tveggja stiga forystu á toppi deildarinnar og jafntefli getur dugað fyrir gullinu en það veltur á úrslitum í öðrum leikjum. Sigur gulltryggir gulum efsta sætið og þ.a.l. sigur í deildinni.

 

Reynismenn þurfa að öllum líkindum að vinna stórt gegn einu sterkasta liði deildarinnar, Þrótti Reykjavík. Reynir situr á botni deildarinnar með 16 stig en í næstneðsta sæti situr KA með 19 stig. Markatala Reynis er -36 en markatala KA er -30. Þetta þýðir að fyrir utan það að landa sigri gegn Þrótti í dag þurfa Reynismenn einnig að treysta á að Þór bursti KA í grannaslagnum fyrir norðan í dag.

 

Von er á fjölmenni við Sparisjóðsvöllinn í Sandgerði í dag þar sem leikurinn skiptir ekki aðeins máli fyrir Reyni og Þrótt því Eyjamenn líta sérstaklega til Sandgerðinga að þessu sinni. Ef Eyjamenn vinna sinn leik í dag gegn Fjölni í Vestmannaeyjum og Reynir vinnur Þrótt þá geta Eyjamenn komist í Landsbankadeildina að því gefnu að markatalan verði þeim hagstæð. Þrjú stig skilja á milli hjá ÍBV og Þrótti en Þróttarar hafa marki betur í markatölunni. Von er á allt að 100 stuðningsmönnum ÍBV í Sandgerði í dag sem ætla að styðja rækilega við bakið á Reynismönnum.

 

Njarðvík og Stjarnan mætast á gervigrasinu í Garðabænum og skiptir sá leikur litlu máli í topp- eða botnbaráttunni þar sem bæði lið eru fremur neðarlega og munu enda þar. Njarðvíkingar og Stjarnan hafa bæði 20 stig í deildinni en Stjarnan er í 8. sæti en Njarðvík í 9. sæti þar sem Stjarnan hefur hagstæðari markatölu.

 

Fróðlegt verður að sjá hvernig spilast mun úr hlutunum í þessari lokaumferð þar sem allt er undir hjá mörgum liðum.

 

Staðan í deildinni

 

VF-Mynd/ Úr safni - Óli Stefán og félagar í Grindavík geta tryggt sér sigur í 1. deildinni í dag.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024