Lee Sharpe æfir með Grindavík
Það var fjölmennt á æfingu Grindavíkurliðsins í knattspyrnu í Reykjaneshöllinni í kvöld. Hafði spurst út að Lee Sharpe, fyrrum leikmaður Manchester United, væri mættur til landsins og komu aðdáendur Grindavíkurliðsins á æfingu til að fylgjast með kappanum. Greinilegt var að Sharpe var vel á sig kominn líkamlega en eftir að hafa heyrt umfjöllun um kappann hér heima hefði verið hægt að búast við því verra, enda umræðan frekar neikvæð. Hann leit þó mjög vel út og sýndi oft á tíðum gamla takta. Ekkert hefur verið ákveðið hvort Sharpe leiki með Grindvíkingum í sumar en þau mál eru í skoðun á meðan kappinn er hér á landi.