KR-ingar unnu 26 stiga sigur í Sláturhúsinu
Fjórða tap Keflvíkinga í röð
KR hafði öruggan sigur á daufum Keflvíkingum í Bítlabænum þegar liðin áttust við í Domino´s deild karla í körfubolta í gærkvöldi. Munurinn varð á endanum 26 stig, lokastaðan 80:106 þar sem piltarnir úr Vesturbænum voru sterkari á öllum vígstöðum allt frá upphafi leiks. Keflvíkingar hafa nú tapað fjórum leikjum í röð í deildinni og sitja í 10. sæti deildarinnar með 6 stig. Amin Stevens var langbestur Keflvíkingar með 27 stig en Magnús Traustason og Ágúst Orrason voru þeir einu utan hans sem náðu í tveggja stafa tölu í stigaskorinu.
Keflvíkingar fá ekki mikinn tíma til þess að hvíla lúin bein þar sem þeir eiga leik í bikarnum gegn Þór Þ. á morgun sunnudag. Sá leikur er í Keflavík og hefst klukkan 15:00.
Keflavík: Amin Khalil Stevens 27/8 fráköst, Magnús Már Traustason 11/4 fráköst, Ágúst Orrason 10, Reggie Dupree 8/4 fráköst, Hörður Axel Vilhjálmsson 7, Guðmundur Jónsson 6, Andrés Kristleifsson 5, Daði Lár Jónsson 3, Andri Daníelsson 3, Hörður Kristleifsson 0, Kristján Örn Rúnarsson 0, Davíð Páll Hermannsson 0.