Keflvíkingar styrktu stöðuna á toppnum
Keflavík sigraði lið Njarðvíkur 68-62 í toppslagslagnum í Iceland Express-deild kvenna í gærkvöldi, Lele Hardy var með 25 stig og 15 fráköst fyrir Njarðvík en Jaleesa Butler átti stórleik fyrir Keflavík og skoraði 35 stig og tók 18 fráköst.
Keflavík er á toppnum með 30 stig og Njarðvík í öðru sæti með 26 stig. Keflavíkurkonur virtust vera í miklum hefndarhug í upphafi leiks því þær komust í 8-2 og 11-4 en þá fóru heimastúlkur í gang, skoruðu 18 stig í röð og komust í 22-11. Njarðvíkurliðið var síðan 25-16 yfir eftir fyrsta leikhlutann.
Njarðvík skoraði fimm fyrstu stig annars leikhluta og komust fjórtán stigum yfir, 30-16, en Keflavíkurliðið náði að vinna sig inn í leikinn á ný og náði að minnka muninn í tvö stig, 35-33, þegar 73 sekúndur voru til hálfleiks. Lele Hardy endaði hálfleikinn á því að setja niður þriggja stiga körfu og Njarðvík var því 38-33 yfir í hálfleik.
Keflavíkurkonur byrjuðu seinni hálfleikinn frábærlega, skoruðu 12 af fyrstu 14 stigum þriðja leikhlutans og voru komnar með fimm stiga forskot, 45-40. Jaleesa Butler skoraði átta stig á þessum kafla og var alls með 10 stig í leikhlutanum. Keflavík var síðan 53-45 yfir fyrir lokaleikhlutann eftir að hafa unnið 3. leikhlutann 20-7.
Keflavíkurliðið náði mest fimmtán stiga forskoti í fjórða leikhlutanum, 66-51, en Njarðvík minnkaði muninn í sex stig fyrir leikslok án þess þó að ógna mikið sigri Keflavíkur.
Njarðvík: Lele Hardy 25/15 fráköst/6 stolnir, Shanae Baker-Brice 20/11 fráköst, Ólöf Helga Pálsdóttir 5/6 fráköst, Harpa Hallgrímsdóttir 4/6 fráköst, Erna Hákonardóttir 3, Salbjörg Sævarsdóttir 2, Petrúnella Skúladóttir 2, Ína María Einarsdóttir 1.
Keflavík: Jaleesa Butler 35/18 fráköst/5 varin skot, Pálína Gunnlaugsdóttir 12/5 stolnir, Hrund Jóhannsdóttir 4, Helga Hallgrímsdóttir 4/12 fráköst, Birna Ingibjörg Valgarðsdóttir 4/5 fráköst, Sara Rún Hinriksdóttir 4/7 fráköst, Lovísa Falsdóttir 3/4 fráköst, Shanika Chantel Butler 2/7 fráköst/5 stoðsendingar.