Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflvíkingar kafsigldu Lettana
Föstudagur 18. nóvember 2005 kl. 02:50

Keflvíkingar kafsigldu Lettana

Keflavík vann glæsilegan sigur á Lettneska liðinu BK Riga í Evrópukeppninni í körfuknattleik í gær, 121-90. Með sigrinum tryggðu þeir sér sæti í 16-liða úrslitum keppninnar þvert á allar spár. Þar munu Keflvíkingar mæta portúgalska liðinu CAB Madeira sem þeir þekkja vel til eftir að hafa mætt þeim síðustu tvö ár.

Keflvíkingar höfðu tapað öllum leikjum sínum í keppninni fram að þessum, en þeir þurftu að vinna með a.m.k. 19 stiga mun til að vinna upp tapið ytra og komast áfram. Skemmst frá að segja var allt annar bragur á liðinu í þessum leik heldur en sést hefur lengi og má segja að þar hafi Keflavíkurhraðlestin loks komist á sporið.

Eftir misjafna byrjun þar sem Lettar skoruðu fyrstu fimm stigin opnaði AJ Moye stigareikning Keflvíkinga á 3. mínútu, en þessi frábæri leikmaður átti svo sannarlega eftir að láta meira að sér kveða í leiknum. Jafnræði var með liðunum þar til staðan var 17-17, en þá settu heimamenn í fluggírinn og hreinlega óðu yfir gestina frá Riga.

Magnús Þór Gunnarsson og Moye röðuðu niður stigunum og þá kom fyrirliðinn Gunnar Einarsson inn með miklum fítonskrafti. Nafni hans, Gunnar Stefánsson jók forskot Keflvíkinga í 11 stig, 30-19 með flautukörfu úr erfiðu færi í lok fyrsta leikhluta.

Keflvíkingar léku afar grimma vörn sem leiddi til þess að Riga-menn misstu boltann hvað eftir annað. Sérstaklega voru Moye, Gunnar Einars og Sverrir Þór Sverrisson skæðir. Það gaf mikið af hröðum sóknum og auðveldum körfum.

Gestirnir áttu að vísu ágætiskafla í upphafi annars leikhluta, þar sem munurinn var kominn niður í fjögur stig, 32-28, en Gunnar E. setti þá þriggja stiga körfu úr ótrúlegu færi. Hann kveikti í sínum mönnum á ný og sló um leið vindinn úr lánlausum Lettunum.

Keflvíkingar sigu lengra og lengra framúr eftir því sem nær dró hálfleik og var þar Arnar Freyr Jónsson í aðalhlutverki. Hann var óstöðvandi og skoraði 10 stig á síðustu mínútunum fyrir hálfleik en þegar liðin héldu inn í klefa var staðan 60-40.

Í seinni hálfleik steig enn ein hetjan upp, Zlatko Gocevski. Hann hefur átt slaka leiki með Keflavíkurliðinu það sem af er hausti, en í síðar hálfleik í gær fór Makedóníumaðurinn á kostum. Hann skoraði 16 stig í seinni hálfleik, þar af tvær 3ja stiga körfur og var drjúgur í vörninni. Ef hann getur sýnt viðlíka baráttuanda og skotnýtingu í næstu leikjum ætti hann að ná að vinna hug stuðningsmanna.

Í seinni hálfleik var aldrei spurning hvort liðið myndi hafa betur, heldur hve mikill munur yrði. Lettarnir lentu í tómum villuvandræðum þar sem þeir sendu Moye á línuna hvað eftir annað. Færi sem hann þáði með þökkum, enda gerði hann 17 stig í 20 vítaskotum.

Þegar  ein og hálf mínúta var til leiksloka var staðan 114-84 og Keflvíkingar komnir með annan fótinn í 16-liða úrslitin. Þeir slógu hins vegar hvergi af og héldu dampi út leikinn og fögnuðu ógurlega í leikslok.

Það sem skóp sigurinn í gær var án efa barátta og liðsandi, sem skorti í fyrstu Evrópuleikina, auk þess sem allir voru að skila góðu dagsverki. AJ Moye átti, eins og áður sagði, frábæran leik þar sem hann skoraði 37 stig og tók 12 fráköst. Næstur honum kom Magnús Gunnarsson með 20 stig, sem komu flest innan 3ja stiga línunnar, sem er óvanalegt hjá þessari miklu skyttu. Auk Gunnars fyrirliða verður að minnast á framlag Sverris Þórs en þeir voru eins og berserkir í vörninni. Þá var þáttur Arnars Freys síst minni, en hann lauk leiknum með 16 stig og hitti úr 4 af 5 þriggja stiga skotum.

Leikirnir gegn Madeira fara fram 8. og 15. desember.

Tölfræði leiksins

Video og fleiri myndir væntanlegt hér á www.vf.is

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024