Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflavík upp í annað sæti eftir sigur gegn KR
Mánudagur 13. febrúar 2012 kl. 22:17

Keflavík upp í annað sæti eftir sigur gegn KR



Leikurinn fór fjörlega af stað og KR-ingar byrjuðu betur en Keflvíkingar voru seinir í gang. Sencanski og Ferguson voru sterkir í sóknarleiknum hjá KR á meðan stigaskorið dreifðist jafnt á milli Keflvíkinga. Gestirnir voru með yfirhöndina í fyrsta leikhluta sem endaði 17-22 fyrir KR. Keflvíkingar skora síðan 12 stig í röð undir lok 1. leikhluta og í byrjun 2. leikhluta og komast yfir 23-22.

Það gerðu Keflvíkingar með því að pressa og spila stífa og góða vörn. Gestirnir komu öflugir til baka og endurheimtu forystuna. En það verður að segjast eins og er að stigaskorið var ekki eins gott og búast mátti við eins og tölur gefa kannski til kynna. Hálfleikstölur 31-37 KR í vil og fyrri hálfleikur í þeirra eigu að mestu.

Dæmið snérist hinsvegar við í seinni hálfleik þegar Jarryd Cole fór hamförum undir körfu KR-inga og fiskaði margar villur. Kappinn skoraði meðal annars eina þriggja stiga körfu en það leggur hann ekki í vana sinn. Cole átti stærstan þátt í að landa sigri fyrir Keflavík í kvöld en hann endaði leikinn með 35 stig og 16 fráköst, en það gera 49 framlagsstig.

Í byrjun 3. leikhluta fóru strákarnir úr Bítlabænum svakalega vel af stað og neyddist þjálfari KR Hrafn Kristjánsson til að að taka leikhlé þegar rúmar 4 mínútur voru liðnar af seinni hálfleik. Það dugði ekki til því að heimamenn völtuðu yfir KR-inga í 3. leikhluta og unnu hann 35-17, en Keflvíkingar náðu aðeins að skora 31 stig í fyrri hálfleik. Keflavík voru með öll völd á vellinum í seinni hálfleik og slökuðu aldrei á klónni og lönduðu nokkuð öruggum sigri þar sem lokatölur urðu 95-83. Keflvíkingar eru því komnir í 2. sæti og voru augljóslega ekki lengi að jafna sig etir tapið gegn Haukum fyrir helgi. Næst á dagskrá Keflvíkinga er bikarúrslitaleikurinn gegn Tindastólsmönnum í Laugardalshöllinni næstkomandi laugardag.

Keflavík: Jarryd Cole 35/16 fráköst, Magnús Þór Gunnarsson 19/7 stoðsendingar, Charles Michael Parker 15, Kristoffer Douse 12/6 fráköst, Almar Stefán Guðbrandsson 7, Valur Orri Valsson 5/5 stoðsendingar, Halldór Örn Halldórsson 2

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024