Keflavík mætir Mainz í kvöld
Keflavík leikur gegn 1. FSV Mainz frá Þýskalandi í 2. umferð í forkeppni UEFA-keppninnar í kvöld. Leikurinn hefst kl. 18:30 að íslenskum tíma eða kl. 20:30 í Þýskalandi.
Leikið er í Frankfurt á Commerzbank Arena sem tekur rúmlega 50 þúsund áhorfendur. FSV Mainz hafnaði í 11. sæti þýsku Bundesligunnar á síðustu leiktíð og því ærinn starfi sem bíður Keflvíkinga sem sigruðu FC Etzella samanlagt 6-0 í 1. umferð.
Guðjón Árni Antoníusson tekur út leikbann í kvöld en hann fékk 2 gul spjöld gegn FC Etzella á Laugardalsvelli þegar liðin háðu síðari viðureign sína. Þá er Stefán Örn Arnarsson enn frá vegna meiðsla.
Hægt verður að fylgjast með stöðunni í leiknum í kvöld með því að smella hér.
VF-mynd/ Hörður fagnar á myndinni einu af fjórum mörkum sínum sem hann gerði í Lúxemborg.