Keflavík mætir ÍR í kvöld – „Það sem menn eru búnir að vinna að í vetur“
„Þetta er ný keppni og menn þurfa að gíra sig upp sérstaklega fyrir hana. ÍR er mjög sterkt lið í heild sinni og þurfum við að stýra leiknum sjálfir ef við ætlum okkur sigur,“ sagði Guðjón Skúlason, þjálfari Keflavíkur. Keflavík mætir ÍR í fyrstu umferð úrslitakeppninnar í Iceland Express deild karla í kvöld. Leikurinn fer fram í Toyotahöllinni í Keflavík og hefst hann á slaginu kl. 19:15.
„Þetta er það sem menn eru búnir að vinna að allan veturinn svo það er ekki við öðru að búast en fullri keyrslu frá hverjum og einum. Það er búinn að vera fínn stígandi í liðinu og held ég að allir leikmenn séu tilbúnir í þetta stórverkefni,“ sagði Guðjón. Keflavík á heimavallarréttinn í fyrstu umferðinni og er það stór plús þegar annað liðið þarf aðeins tvo sigra til að komast áfram. „Auðvitað er það mikill plús að byrja á heimavelli enda erum við með mjög sterkan heimavöll.“
Thomas Sanders og Jón Norðdal Hafsteinsson voru ekki í liðinu í seinasta leik gegn Grindavík sökum meiðsla. „Sanders er að verða góður og hef ég trú á því að hann verði með í fyrsta leik. Sama má segja um Jonna en hann er einnig allur að braggast.“
[email protected]