Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflavík lauk tímabilinu með sigri á Njarðvík
Keflvíkingar fara í frí eftir sigur á Njarðvík. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
miðvikudaginn 30. mars 2022 kl. 23:23

Keflavík lauk tímabilinu með sigri á Njarðvík

Keflvíkingar kláruðu tímabilið með stæl þegar þær unnu nágrannana úr Njarðvík í lokaumferð deildarkeppninnar í Subway-deild kvenna – jafnvel þótt Aliyah Collier hafi verið með 34 stig fyrir Njarðvík lauk leiknum með tíu stiga sigri Keflavíkur, 72:62.

Keflavík - Njarðvík 72:62

(20:13, 19:15, 17:19, 16:15)
Þegar Keflavík og Njarðvík mætast er yfirleitt ekkert gefið eftir. Aliyah Collier (Njarðvík) og Daniella Wallen (Keflavík) kljást um boltann.

Það var nokkuð ljóst að Keflvíkingar komu betur stemmdar í leikinn og náðu þær fljótlega að byggja upp ágætis forystu, leiddu með sjö stigum eftir fyrsta leikhluta. Áfram hélt basl Njarðvíkinga í öðrum leikhluta og Keflavík jók forskotið í ellefu stig, staðan í hálfleik 39:28.

Gestirnir frá Njarðvík klóruðu aðeins í bakkann í þriðja leikhluta en ekki nándar nærri nóg, þeim tókst þó að minnka muninn um tvö stig og voru því níu stigum á eftir heimaliðinu þegar fjórði leikhluti hófst (56:47).

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í lokaleikhlutanum tók Aliyah Collier til sinna ráða og gerði hún hvert stigið af öðru, tók fráköst og stal boltanum. Collier gerði öll stig Njarðvíkinga í leikhlutanum utan tveggja – en þá átti hún stoðsendinguna. Njarðvík (Collier) náði að jafna leikinn í 60:60 en þá var eins og púðrið væri búið og Keflavík kláraði leikinn.

Hjá Njarðvík var Aliyah Collier með 34 af 62 stigum Njarðvíkinga, þá tók hún fimmtán fráköst, átti fjórar stoðsendingar og 38 framlagspunkta. Daniela Wallen var með 22 stig fyrir Keflavík, sautján fráköst, þrjár stoðsendingar og 29 framlagspunkta. Næst henni voru Ólöf Rún Óladóttir 12/3/3, Anna Ingunn Svansdóttir 10/5/1, Katla Rún Garðarsdótttir 9/3/2 og Eygló Kristín Óskarsdóttir 7/2/2.

Keflavík er þá komið í ótímabært frí en hjá Njarðvík tekur úrslitakeppnin við og það er nokkuð ljóst að Rúnar Ingi Erlingsson, þjálfari þeirra, þarf að ná meiru út úr liðinu en það sýndi í þessum leik. Frábært framlag frá einum leikmanni dugar ekki þegar í úrslitakeppnina er komið, allt liðið þarf að mæta tilbúið í leikina sem eftir eru ætli það sér að gera einhverja hluti.

Rúnar Ingi ræddi við fréttamann Víkurfrétta eftir leik og hann var að vonum ekki sáttur með leik síns liðs. „Mér fannst vanta alla orku í okkur, stelpurnar voru hálf kraftlausar í fyrri hálfleik og það vantaði alveg neistann. Ég setti leikinn upp eins og fyrsta leik í úrslitakeppninni og setti mikla pressu á þær. Ég er hálffeginn að hafa gert það, vonandi er stressið þá farið úr kerfinu á þeim og þær tilbúnar í úrslitakeppnina,“ sagði Rúnar og bætti svo við: „Ég hélt reyndar að við myndum ná að stela þessu í lokin en ég bjóst ekki við að Aliyah [Collier] ætlaði að gera það ein síns liðs.“


Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var í Blue-höllinni og smellti af nokkrum myndum eins og sjá má neðar á síðunni.

Keflavík - Njarðvík (72:62) | Subway-deild kvenna 30. mars 2022

Tengdar fréttir