Keflavík kláraði KR eftir hörkurimmu
Það var boðið upp á hörkuleik í Blue-höllinni þegar KR mætti heimamönnum í Keflavík í Subway-deild karla í körfuknattleik. Keflvíkingar voru skrefi á undan KR lengst af en náðu ekki að slíta sig frá þeim. KR-ingar komust yfir í fyrsta sinn í lok þriðja leikhluta og eftir rafmagnaðan fjórða leikhluta var staðan jöfn, 97:97. Það voru svo Keflvíkingar sem reyndust sterkari í framlengingu og höfðu sætan sigur að lokum, 110:106.
Keflavík - KR 110:106
(23:15, 26:26, 22:31, 26:25, 13:9)
Leikurinn byrjaði með látum og það var fyrirliðinn sjálfur, Hörður Axel Vilhjálmsson, sem lagði línurnar og setti niður þrist í upphafi leiks. KR minnkaði muninn í næstu sókn (3:2) en þá kom að Mustapha Jahhad Heron að bæta öðrum þristi við (6:2). KR svaraði að vörmu spori með sinni fyrsta þriggja stiga körfu og staðan því 6:5, þrír þristar í fjórum fyrstu skotunum.
Keflavík hafði yfirhöndina framan af og leiddi eftir fyrsta leikhluta með átta stigum (23:15). Keflvíkingum tókst samt ekki að hrista KR af sér og hélst sami munur út fyrri hálfleikinn, staðan í hálfleik 49:41.
Snemma í síðari hálfleik komust heimamenn í ellefu stiga forystu (56:45) en þá tóku Vesturbæingar að saxa á muninn og á síðustu sekúndum þriðja leikhluta komust þeir í fyrsta sinn í leiknum með þristi (71:72).
Það var allt í járnum í fjórða leikhluta en gestirnir voru samt skrefinu á undan og leiddu með þremur til fjórum stigum. Munurinn minnkaði þó undir lokin og í stöðunni 89:92 setti Valur Orri Valsson niður þriggja stiga skot til að jafna metin (92:92). Keflavík náði að komast þremur stigum yfir þegar lítið var eftir með tveimur vítaskotum frá Darius Tarvydas (97:94) en rétt áður en tíminn rann út fyrir KR settu þeir niður enn einn þristinn, staðan 97:97 og því framlengt.
KR gerði fimm fyrstu stigin í framlengingunni (97:102) en Keflavík jafnaði metin og hélst leikurinn jafn og spennandi allt til loka – eða allt þar til Jaka Brodnik kom Keflavík í 108:106, því næst stal hann boltanum, KR braut á honum og hann setti niður bæði vítaköstin. Lokatölur 110:106.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var í Blue-höllinni og má sjá myndasafn úr leiknum neðar á síðunni.
Frammistaða Keflvíkinga: Darius Tarvydas 27/9 fráköst/5 stoðsendingar, Dominykas Milka 24/13 fráköst/6 stoðsendingar, Mustapha Jahhad Heron 20, Jaka Brodnik 19/5 fráköst, Halldór Garðar Hermannsson 11, Valur Orri Valsson 6, Hörður Axel Vilhjálmsson 3/7 stoðsendingar, Reggie Dupree 0, Arnór Sveinsson 0, Frosti Sigurðsson 0, Magnús Pétursson 0, Almar Stefán Guðbrandsson 0.