Keflavík í þriðja sæti eftir sigur á Grindavík
Keflvíkingar tóku á móti Grindavík í kvöld í næstsíðustu umferð Subway-deildar karla í körfuknattleik. Heimamenn tóku snemma forystu og héldu henni út leikinn – Grindvíkingar gerðu vel og sköpuðu smá spennu undir lok leiks þegar þeir gerðu harða atlögu að Keflvíkingum og minnkuðu muninn í fimm stig. Keflavík fóru með sigur af hólmi (78:70) og eru í þriðja sæti deildarinnar fyrir síðustu umferð sem verður leikin á fimmtudag.
Keflavík - Grindavík 78:70
(21:14, 19:18, 18:13, 20:25)
Eins og við var að búast var ekkert gefið eftir þegar Suðurnesjaliðin Keflavík og Grindavík mættust. Keflavík hafði betur í fyrri viðureign liðanna en það voru gestirnir sem gerðu fyrstu stig kvöldsins þegar Elbert Clark Matthews setti niður þrist – það var eina skiptið sem Grindavík leiddi leikinn því Keflavík var fljótt að snúa leiknum sér í vil og leiddi með sjö stigum að loknum fyrsta leikhluta (21:14).
Jafnræði var á liðunum í öðrum leikhluta en Keflavík jók muninn í þeim þriðja og hafði náð þrettán stiga forskoti (58:45) fyrir lokaleikhlutann. Grindvíkingar hleyptu lífi í leikinn í fjórða leikhluta og sáu til þess að síðustu mínúturnar urðu spennandi en munurinn var orðinn of mikill og Keflavík landaði góðum átta stiga sigri (78:70).
Keflavík: Mustapha Jahhad Heron 24/7 fráköst, Darius Tarvydas 14/8 fráköst, Valur Orri Valsson 10/8 fráköst/6 stoðsendingar, Halldór Garðar Hermannsson 10, Dominykas Milka 8/12 fráköst, Hörður Axel Vilhjálmsson 5/6 fráköst/5 stoðsendingar/5 stolnir, Jaka Brodnik 5, Almar Stefán Guðbrandsson 2, Magnús Pétursson 0, Þröstur Leó Jóhannsson 0, Arnór Sveinsson 0, Ágúst Orrason 0.
Grindavík: Kristinn Pálsson 21/5 fráköst, Ivan Aurrecoechea Alcolado 20/6 fráköst, Elbert Clark Matthews 16/7 fráköst/5 stolnir, Naor Sharabani 8/6 fráköst/5 stoðsendingar, Ólafur Ólafsson 5, Jón Fannar Sigurðsson 0, Magnús Engill Valgeirsson 0, Hafliði Ottó Róbertsson 0, Hinrik Hrafn Bergsson 0, Kristófer Breki Gylfason 0, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 0/5 fráköst, Javier Valeiras Creus 0.
Frábær stemmning á pöllunum
Það vantaði ekkert upp á stemmninguna hjá stuðningsmönnum liðanna og ljóst að þeir eru klárir í úrslitakeppnina.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á leiknum og má sjá svipmyndir úr honum neðar á síðunni.