Keflavík fallið
Vonir Keflvíkinga um að halda sæti sínu í deild þeirra bestu urðu að engu í gær þegar Keflavík sótti Fram heim og tapaði með þremur mörkum gegn einu.
Keflavík hefur átt erfitt uppdráttar í allt sumar og aðeins unnið tvo leiki í deildinni. Í leiknum í gær lentu Keflvíkingar undir á 5. mínútu þegar Guðmundur Magnússon átti góðan skalla í netið upp úr hornspyrnu sem Fram fékk.
Í seinni hálfleik náði Keflavík að jafna leikinn með marki frá Edon Osmani (67') en eins og oft áður í sumar fengu Keflvíkingar mark í andlitið skömmu síðar (72'). Aron Jóhannsson gerði svo út um leikinn með þriðja marki Framara á 84. mínútu og ljóst að Keflavík fer niður og leikur í Lengjudeildinni á næsta tímabili.
Haraldur Freyr Guðmundsson, þjálfari Keflvíkinga, sagði í samtali við Fótbolti.net eftir leikinn að fyrstu viðbrögð væru vonbrigði. „Vonbrigði með leikinn og sorglegt að vera fallnir niður um deild. Að mínu viti finnst mér að Keflavík eigi alltaf að vera með lið í efstu deild.“