Keflavík er Íslandsmeistari í 9. flokki stúlkna
Keflavík er Íslandsmeistari í 9. flokki stúlkna eftir öruggan 65-39 sigur á grönnum sínum úr Njarðvík. Keflavík tók forystu snemma í leiknum og hafði að lokum öruggan sigur þar sem Sandra Lind Þrastardóttir var valin besti maður leiksins með 16 stig, 20 fráköst og 3 stoðsendingar en þessi ungi miðherji Keflavíkur hefur einnig látið vel að sér kveða í flokkum langt upp fyrir sig og ljóst að hér er á ferðinni leikmaður sem vert er að fylgjast náið með í framtíðinni.
Keflvíkingar byrjuðu með látum, leiddu 21-5 að loknum fyrsta leikhluta með sterkum varnarleik þar sem Sara Lind Þrastardóttir var að gera Njarðvíkingum lífið leitt með 10 stig og 7 fráköst í Keflavíkurliðinu.
Njarðvíkingum tókst að hægja á Keflavík í öðrum leikhluta en tveir sterkir Keflavíkurþristar skömmu fyrir hálfleik breyttu stöðunni í 29-11. Staðan í leikhléi var svo 36-17 Keflavík í vil sem unnu annan leikhluta 15-12 og augljós batamerki á Njarðvíkingum sem áttu þó erfitt uppdráttar eftir Keflavíkurhvellinn í fyrsta leikhluta.
Keflavík stökk út á völlinn í síðari hálfleik og settu Njarðvíkinga á hælana. Þriðji var margt um líkur fyrsta hluta og vann Keflavík leikhlutann 18-7 og leiddu því 54-24 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
Í fjórða leikhluta var aldrei spurning um hvort liðið færi með sigur af hólmi, Keflvíkingar höfðu náð upp of mikilli forystu og sigldu því örugglega í höfn og lönduðu þar Íslandsmeistaratitlinum með 65-39 sigri.
Sara Rún Hinriksdóttir var stigahæsti í Keflavíkurliðinu með 20 stig og 14 fráköst og besti maður leiksins, Sandra Lind Þrastardóttir, gerði 16 stig, tók 20 fráköst og gaf 3 stoðsendingar. Hjá Njarðvík var Guðlaug Björt Júlíusdóttir með 27 stig og 4 fráköst.
Við ræddum stuttlega við fyrirliða Keflavíkur eftir leikinn, þær Söndru Lind Þrastardóttur og Söru Rún Hinriksdóttur. ,,Við höfum ekki tapað í fimm ár,“ sagði Sandra galvösk eftir leikinn og því einu skiptin sem þessar öflugu dömur tapa leik er þegar þær spila upp fyrir sig. ,,Við höfum samt ekki mikið tapað þar,“ sagði Sara Rún sposk. Hvað gera þessar stelpur betur en aðrir sem útskýrir þennan magnaða árangur?
,,Við æfum 8-10 sinnum í vikum og keppum nánast hverja einustu helgi,“ sagði Sandra Lind en hafa þær þá tíma fyrir eitthvað annað? ,,Já já, maður verður bara að vera skipulagður,“ sagði Sara Rún en hvað sjá þessar stelpur þegar litið er fram á veginn? ,,Okkur langar svolítið að fara út í nám, taka eitt ár í framhaldsskóla og fara svo út,“ sagði Sara Lind og ekki ólíklegt að íslenskur kvennakörfubolti þurfi að sjá á eftir þessum öflugu leikmönnum í faðminn á Ameríkunni í ekki svo fjarlgæri framtíð.
Myndasafn úr leiknum
Myndir/ Tomasz Kolodziejski – [email protected]
Umfjöllun/ Jón Björn Ólafsson – [email protected]