Keflavík á möguleika
Finnsku meistararnir í Lappenranta sigruðu BK Riga í Lettalandi á miðvikudagskvöld, 79-85. Þetta þýðir að enn eiga Keflvíkingar möguleika á því að komast áfram í Evrópukeppninni í körfuknattleik. Hins vegar þurfa Keflvíkingar að vinna upp 20 stiga forskot BK Riga.
Fyrri viðureign Keflavíkur og BK Riga lauk með sigri þeirra síðarnefndu 96-76 í Lettlandi en úrslit miðvikudagsins gera leik Keflavíkur og BK Riga mun meira spennandi. Möguleiki Keflavíkur á áframhaldandi þátttöku í Evrópukeppninni er fyrir hendi en hann verður varla auðsóttur.
Víkurfréttir settu sig í samband við föður körfuboltans í Keflavík, Sigurð Valgeirsson, en hann hefur fulla trú á því að Keflvíkingum takist að framlengja þátttöku sína í Evrópukeppninni. „Ég treysti strákunum alveg til þess að fara áfram í keppninni en það fer svolítið eftir því hvernig A.J. Moye verður en hann snéri sig á ökkla gegn Grindavík,“ sagði Sigurður. A.J. Moye fór ekki með Keflvíkingum til Egilsstaða í gær vegna meiðslanna en leiknum var frestað.
„Það kæmi mér ekki á óvart ef stjórnin myndi kalla til sín annan bandaríkjamann þar sem möguleikinn fyrir áframhaldandi þátttöku í Evrópukeppninni er fyrir hendi en ég hef ekkert heyrt af neinum svoleiðis áætlunum,“ sagði Sigurður að lokum.
Seinni viðureign Keflavíkur og BK Riga fer fram í Sláturhúsinu fimmtudaginn 17. nóvember kl. 19:15.
VF-mynd/ frá viðureign Keflvíkur og Lappeenranta í Sláturhúsinu