Jón Axel sjóðheitur í sigri gegn Rússum
Íslendingar á siglingu á Evrópumóti U20 í körfunni
Grindvíkingurinn Jón Axel Guðmundsson fór fyrir 20 ára landsliði Íslands í körfubolta á Evrópumótinu í Grikklandi, þar sem stórþjóð Rússlands var lögð að velli. Bakvörðurinn sterki sem mun leika í bandaríska háskólaboltanum í haust, var hreint óstöðvandi í leiknum, skoraði 32 stig, tók 11 fráköst og stal fimm boltum. Íslendingar unnu 71-65 sigur á Rússum og komu nokkuð á óvart.
Þeir létu sér það ekki nægja og unnu sigur á Eistum í næsta leik þar sem Njarðvíkingurinn Kristinn Pálsson skoraði 11 stig en Jón Axel hafði þá frekar hægt um sig í sóknarleiknum. Liðið mætir svo Pólverjum á miðvikudag í slag um toppsæti b-riðils.