Jafnt fyrir norðan hjá Keflavík og KA
Umdeild vítaspyrna á Akureyri - Haraldur missti fjórar tennur
Keflvíkingar urðu af sigri þegar KA-menn jöfnuðu eftir að umdeild vítaspyrna var dæmd í blálokin þegar liðin áttust við í 1. karla á Akureyri í gær. Guðmundur Magnússon kom Keflvíkingum yfir þegar hann skoraði eftir 38. mínútna leik, eftir góðan undirbúning Sigurbergs Elissonar.
Keflvíkingar voru betri aðilinn bróðurpart leiksins og þeir virtust ætla að ná í gríðarlega sterkan útsigur gegn vel mönnuðu liði Akureyringa. Á 90. mínútu komst sóknarmaður KA-manna inn fyrir vörnina en Einar Orri Einarsson tæklar hann. Keflvíkingar voru mjög ósáttir við vítaspyrnudóminn sem kom í kjölfarið. KA-menn jöfnuðu og þar við sat.
Haraldur Freyr Guðmundsson fyrirliði Keflvíkinga varð fyrir því óláni að missa fjórar tennur í leiknum eftir samstuð við leikmann KA. Hann var nýlega farinn af velli þegar vítaspyrnan var dæmd.
Keflvíkingar eru enn taplausir í deildinni en eru þó sem stendur í fjórða sæti.