Íþróttaárið 2012: Grindvíkingar hefðu mátt sleppa við fall
- Guðmundur Steinarsson gerir upp árið 2012 í sportinu
Guðmundur Steinarsson knattspyrnumaður úr Keflavík svaraði nokkrum léttum spurningum um íþróttaárið 2012. Guðmundur sér á eftir Grindvíkingum sem urðu að sætta sig við fall úr efstu deild karla í fótbolta á árinu. Hann telur að Suðurnesjamenn verði áfram í fremstu röð á komandi ári og hrósar sérstaklega stöðuleikanum sem hér ríkir í stóru íþróttagreinunum svokölluðu.
Hvað stóð upp úr á íþróttaárinu 2012 á Suðurnesjum?
„Árangur sundfólks, taekwondo og yngri flokka kvennakörfunnar í Keflavík kemur svona fyrst upp. Svo má bæta við bikarmeistaratitli Keflavíkur í körfu og að við Suðurnesjamenn eigum okkar fulltrúa í Evrópumeistaraliði Gerplu í fimleikum.“
Hver voru vonbrigði ársins að þínu mati?
„Enginn stór vonbrigði, hefði kannski í ljósi stöðunnar viljað sjá okkur í boltanum enda ofar, og svo hefði Grindavík alveg mátt sleppa því að falla, þarna vorum við að missa af stuttu ferðalagi og skemmtilegum rimmum.“
Hvaða íþróttamaður/kona skaraði framúr á árinu?
„Pálina og Sara í körfunni í Keflavík stóðu sig báðar frábærlega og þau eru nokkur í sundinu sem áttu frábæra „spretti“. Svo mætti nefna Arnór Ingva í fótboltanum og Jón Steinar í taekwondóinu.“
Einhverjar íþróttagreinar sem komu sterkar inn á þessu ári?
„Þetta er orðið pínu rótgróið hérna hjá okkur. Maður getur þó hrósað þessum stóru deildum, körfunni, fótboltanum, sundinu, fimleikum og teakwondo fyrir að halda gæðum, styrkleika og framleiðslu á flottu íþróttafólki ár eftir ár.“
Hvernig sérðu íþróttafólk af Suðurnesjum standa sig á næsta ári?
„Bara eins og alltaf, við á Suðurnesjum stöndum okkur alltaf vel, það er bara þannig. Ég held að svo verði áfram og við hér á Suðurnesjum getum áfram verið stolt af því sem okkar íþróttafólk er að gera.“