Hverjir taka við af Frikkunum?
Eftir að ljóst varð að nafnarnir Friðrik Ragnarsson og Friðrik Ingi Rúnarsson myndu hætta þjálfun eftir tímabilið hafa ýmsar sögusagnir um eftirmenn gengið milli manna.
Fjölmörg nöfn hefur borið á góma í sambandi við starfið hjá Njarðvík og ber þar hæst kunna kappa líkt og Teit Örlygsson, Val Ingimundarson og Einar Árna Jóhannsson.
Valþór Jónsson, varaformaður körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur, sagði stjórnarmenn ekki enn hafa hist eftir að tímabilinu lauk, en sagði að ekki hefði verið haft samband við neinn og þessi mál myndu skýrast á næstunni. „Við erum enn að sleikja sárin eftir að hafa dottið úr keppni, en við í núverandi stjórn gætum annað hvort tekið af skarið eða látið það bíða þar til eftir aðalfund og leyft næstu stjórn að sjá um þessi mál.“
Ein kjaftasagan sem er í gangi í sambandi við stólinn í Grindavík er sú að Brenton Birmingham flytji sig aftur um set og taki við stjórnartaumunum í Röstinni. „Það er góð hugmynd!“, sagði Magnús Andri Hjaltason, formaður körfuknattleiksdeildarinnar í Grindavík, og bætti við að það væri styrkur að fá slíkan leikmann aftur. „En það er af og frá að við séum í viðræðum við hann. Við höfum ekki haft samband við neinn og það eina sem er í gangi í þessum málum hjá okkar er að við stjórnarmennirnir höfum verið að velta þessum hlutum upp okkar á milli og þau nöfn sem hafa komið þar upp eru öll íslensk.“