Hörkustemmning í Ljónagryfjunni
Það var vel mætt á pallana í Ljónagryfjunni í kvöld þegar Grindvíkingar sóttu Njarðvík heim. Hörkustemmning myndaðist í upphafi leiks og var tekist á af mikilli hörku á vellinum enda alltaf mikið í húfi þegar Suðurnesjaliðin mætast. Njarðvík stóð uppi sem sigurvegari en eftir jafnan fyrsta leikhluta tóku þeir flugið og var sigur þeirra aldrei í hættu.
Njarðvík - Grindavík 102:76
(24:23, 27:16, 23:19, 28:18)
Fyrsti leikhluti hófst með látum og ljóst að bæði lið myndu selja sig dýrt. Leikurinn var hraður og hvorugu liði tókst að ná nokkru forskoti enda munaði aðeins einu stigi að fyrsta leikhluta loknum (24:23).
Njarðvíkingar tóku annan leikhluta með áhlaupi, gerðu tíu fyrstu stigin og héldu því forskoti fram að hálfleik. Staðan 51:39 og tólf stiga munur á liðunum þegar gengið var til klefa.
Grindvíkingum tókst ekki að saxa á muninn í þriðja leikhluta og reyndar breikkaði bilið í sextán stig (74:58). Það var því komin hálfgerð uppgjöf í gestuna í fjórða leikhluta og lítið gekk upp hjá þeim á meðan heimamenn léku á alls oddi. Að lokum fóru Njarðvíkingar með 26 stiga sigur af hólmi og eru í öðru sæti deildarinnar með 24 stig, tveimur stigum á eftir Þór Þorlákshöfn sem hafa leikið einum leik fleiri.
Það var hvergi veikan blett að finna hjá Njarðvíkingum í kvöld og liðið lagði allt í sölurnar fyrir sigurinn. Mario Matasovic var stigahæstur með tuttugu stig og átta fráköst, Dedrick Deon Basile var með nítján stig, átta fráköst og sex stoðsendingar. Þá var Basile með hæsta framlagið í kvöld, eða 31 framlagspunkt.
Hjá gestunum bar mest á Elbert Clark Matthews og Ivan Aurrecoechea Alcolado en báðir gerði þeir 21 stig, Alcolado var að auki með níu fráköst og hæsta framlag Grindvíkinga í leiknum.
Frammistaða Njarðvíkinga: Mario Matasovic 20/8 fráköst, Dedrick Deon Basile 19/8 fráköst/6 stoðsendingar, Fotios Lampropoulos 19/6 fráköst, Veigar Páll Alexandersson 15, Haukur Helgi Pálsson 14/5 stoðsendingar, Nicolas Richotti 11/6 stoðsendingar, Elías Bjarki Pálsson 2, Logi Gunnarsson 2/5 stoðsendingar, Mikael Máni Möller 0, Bergvin Einir Stefánsson 0, Ólafur Helgi Jónsson 0.
Frammistaða Grindvíkinga: Elbert Clark Matthews 21, Ivan Aurrecoechea Alcolado 21/9 fráköst, Naor Sharabani 20/5 fráköst/5 stoðsendingar, Ólafur Ólafsson 7, Javier Valeiras Creus 6, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 1, Kristófer Breki Gylfason 0, Magnús Engill Valgeirsson 0, Kristinn Pálsson 0.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, fylgdist með leik Njarðvíkur og Grindavíkur í kvöld og má sjá myndasafn neðar á síðunni.