Haukar skelltu Keflvíkingum í Lengjunni
Keflvíkingar tóku á móti 1. deildar liði Hauka í Reykjaneshöllinni í kvöld í 5. umferð Lengjubikarsins. Það er óhætt að segja að óvænt úrslit hafi átt sér stað en Haukar, sem voru fyrir leikinn á botni riðilsins, yfirspiluðu slaka Keflvíkinga og unnu sannfærandi 1-3 sigur eftir að hafa leitt 0-2 í hálfleik.
Sindri Snær Magnússon skoraði mark Keflvíkinga sem stilltu upp nokkuð sterku liði í kvöld en áttu ekki erindi sem erfiði gegn sprækum Hafnarfjarðarpiltum.
Heimamenn sitja ennþá í 3. sæti riðilsins með 7 stig en nokkur lið eiga inni leiki sem mögulega gætu fært þá neðar í töfluna.
Keflvíkingar leika næst gegn toppliði ÍA í Akraneshöllinni þann 21. mars.