Handbolti í húsnæðishraki
Handknattleiksfélag Reykjanesbæjar hefur engan heimavöll eftir að því var úthýst úr íþróttaakademíunni í byrjun síðustu viku. Handboltamenn eru óánægðir með stöðu mála.
Sem kunnugt er ákváðu bæjaryfirvöld að breyta Íþróttaakademíunni í fimleikahús og hófust framkvæmdir við þær breytingar í síðustu viku.
Þetta þýðir að HKR missir alla sína æfingatíma í Akademíunni, samtals um 15 klukkustundir á viku og að auki sinn heimavöll. Að sögn Hjalta S. Hjaltasonar, yfirþjálfara yngri flokka, hefur félaginu í staðinn verið úthlutað fáeinum klukkustundum í Íþróttahúsinu á Ásbrú.
„Forráðamenn íþrótta- og tómstundamála í Reykjanesbæ hafa hins vegar engar lausnir fyrir HKR varðandi heimavöll. Óvíst er á þessari stundu hvar félagið mun leika sína heimaleiki það sem eftir lifir keppnistímabilsins 2009-2010. Óhætt er að segja að með þessu sé okkur gert ljóst hvaða sess handboltinn skipar í okkar ágæta sveitarfélagi,“ segir Hjalti ennfremur.
Forráðamenn HKR reyna nú að leysa þetta mál og vilja biðjast velvirðingar á því raski sem þessar breytingar kunna að hafa í för með sér fyrir iðkendur og forráðamenn þeirra.