Guðni íþróttamaður Keflavíkur 2007
Sundmaðurinn Guðni Emilsson var í gær sæmdur nafnbótinni Íþróttamaður Keflavíkur fyrir árið 2007. Hann var einnig valinn sundmaður ársins hjá félaginu.
Í umsögn með tilnefningu Guðna segir m.a.:
Guðni Emilsson er sérlega efnilegur og duglegur sundmaður. Guðni á nokkur gildandi met í yngri aldursflokkunum og á síðasta ári þá vann hann til verðlauna á Norðurlandameistaramóti unglinga. Hann er einn af efnilegri bringusundsmönnum landsins, og á Íslandsmeistaramótinu í 25m laug í nóvember síðastliðnum varð hann Íslandsmeistari í 50m bringusundi. Tími hans í þeirri grein skipar honum í 33. sæti í fullorðinsflokki á afrekaskrá Evrópu. Hann hefur einnig orðið Íslandsmeistari í fullorðinsflokki í fjórum boðsundum á árinu og er einn af burðarásum boðsundsveitar deildarinnar sem sett hefur þrenn Íslandsmet á árinu.
Guðni tryggði sér sæmdarheitið Sundmaður Keflavíkur árið 2007 með því að synda 50m bringusund í 25m laug á tímanum 28.59 sek, sem gaf 815 alþjóðleg FINA stig, og 50m bringusund í 50m laug á tímanum 29.72 sek, sem gaf 793 alþjóðleg FINA stig. Fyrir þessi tvö sund fékk hann því samtals 1608 FINA stig.
Aðrir sem hlutu viðurkenningar voru:
Fimleikadeild Keflavíkur:
Kristín Sigurðardóttir kemur úr hópfimleikum og hefur staðið sig frábærlega innan liðsins þar sem hún hefur verið fastamaður sl. ár.
Kristín hefur tekið miklum framförum á síðustu árum og stefnir enn hærra. Hún er metnaðarfull og sýnir fimleikunum fullan áhuga. Hún er yngri iðkendum góð fyrirmynd og einnig er hún félagi sínu ávallt til sóma hvar sem hún kemur fram.
Kristín hefur keppt á mörgum mótum með hópnum sínum og má þar nefna Bikarmót sem haldið var á Selfossi sl. mars þar stóð hún sig frábærlega þrátt fyrir að ná ekki á verðlaunapall. Kristín varð Innanfélagsmeistari með hópnum sínum 11. maí sl. þar sem hún skipaði stórt hlutverk. Síðast liðið vor tók Kristín svo þátt í Vortrompmótinu sem haldið var hér í Keflavík og stóðu stúlkurnar sig einkar vel, þær urðu í 1. sæti á dýnu og á trampólíni.
Það liggur því enginn vafi í því að hér er á ferðinni topp fimleikastúlka með bjarta framtíð.
Taekwondodeild Keflavíkur:
Aron Yngvi Nielsen átti ótrúlega góðum árangri að fagna á árinu. Á tímabilinu 2006-2007 er Aron enn ósigraður á landsvísu og hefur m.a.
verið valinn maður mótsins, á tveimur af þremur bikarmótum ásamt því að vinna titilinn Bikarmeistari TSH mótaraðarinnar 2007. Hann hefur sigrað alla sína bardaga með miklum yfirburðum og verið gífurlega góð fyrirmynd fyrir aðra iðkendur í sínu félagi og víðar. Hann stundar æfingar af kappi með sérstökum úrvalshóp í félaginu og er þar með einn af þeim allra bestu í þessu stærsta taekwondo félagi á landinu.
Í nóvember síðastliðinn náði hann þeim stórgóða árangri að vinna sér til bronsverðlauna á Scandinavian Open mótinu í Danmörku. Það var hans fyrsta mót erlendis og stóð hann sig hetjulega og vann sér inn góð stig í reynslubankann fyrir komandi ár. Scandinavian Open er með stærstu mótum á Nörðurlöndunum í greininni og því stórgóður árangur hjá Aroni.
Skotdeild Keflavíkur:
Bjarni Sigurðsson hefur sýnt góðan árangur á mótum og er stöðugt að bæta sig í haglagreinum.
Körfuknattleiksdeild Keflavíkur:
Bryndís Guðmundsdóttir var helsti leiðtogi meistaraflokks kvenna í körfuknattleik. Þær enduðu í öðru sæti í deildinni og í úrslitakeppninni tímabilið 2006-2007. Einnig urðu stelpurnar í silfursætinu í bikarkeppninni. Bryndís skoraði 13,7 stig að meðaltali í íslandsmótinu á síðasta tímabili og 13,6 stig að meðaltali í úrslitakeppninni. Bryndís meiddist í byrjun tímabilsins í vetur og eftir aðeins fjóra spilaða leiki hefur hún skorað 20 stig að meðaltali.
Badmintondeild Keflavíkur:
Margrét Vala Kjartansdóttir hefur mætt vel á æfingar á árinu. Einnig náði hún að komast í undanúrslit á Íslandsmóti unglinga sem fram fór í Hafnarfirði fyrr á árinu.
Knattspyrnudeild:
Guðjón Árni Antoníusson spilaði í sumar alla leiki Keflavíkur í Landsbankdeild og skoraði þar 2 mörk. Að auki spilaði hann 9 leiki í öðrum mótum á vegum KSÍ.
Guðjón Árni spilaði sinn fyrsta leik með aðalliði Keflvíkinga aðeins 19 ára árið 2002 og hefur verið fastamaður í liðinu síðan. Hann er aðeins 24 ára gamall og á því eftir að verða einn af burðarásum í liði Keflavíkur á komandi árum. Hann lék vel í hægri bakvarðarstöðunni í sumar eins og síðustu sumur og stóð sig með ágætum. Þrátt fyrir að vera varnarmaður og harður í horn að taka er hann prúður leikmaður og góð fyrirmynd innan vallar sem utan og er því vel þess verðugur að vera knattspyrnumaður Keflavíkur árið 2007.
Guðjón Árni er glæsilegur fulltrúi knattspyrnudeildarinnar í kjöri sem Íþróttamaður Keflavíkur 2007.