Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Guðmundur Rúnar lagaði meistaramóts-sveifluna og endaði í 2. sæti
Mánudagur 20. júlí 2020 kl. 12:05

Guðmundur Rúnar lagaði meistaramóts-sveifluna og endaði í 2. sæti

„Ég var pínu týndur í meistaramóti GS og fór í tíma hjá Sigga Palla og þetta small allt aftur. Það er gaman að vera með í stigamótunum og ég hef verið rosalega vel stemmdur í þeim og gengið vel. Ég spilaði mjög vel á Hvaleyrinni og er mjög sáttur með árangurinn,“ segir Guðmundur Rúnar Hallgrímsson, kylfingur úr Golfklúbbi Suðurnesja en hann varð í 2. sæti í Hvaleyrarbikarnum í Hafnarfirði um helgina en það er eitt af stigamótum Golfsambands Íslands. Guðmundur lék á 3 höggum undir pari og endaði höggi á eftir sigurvegaranum Hákoni Erni Magnússyni.

Guðmundur Rúnar var með forystu á lokakaflanum í mótinu á Hvaleyrinni en tapaði höggi á 16. og 18. braut í seinni hringnum en leiknar voru 36 holur á einum degi eftir að mótinu hafði verið frestað vegna veðurs föstudag og laugardag. Hann hefur náð góðum árangri í stigamótunum í sumar, varð t.d. í 3. sæti í fyrsta mótinu á Akranesi og náði einnig ágætum árangri í tveimur öðrum stigamótum sumarsins.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Guðmundur segist hafa æft mjög vel í vor og sumar og hann verður í eldlínunni næst á Íslandsmótinu í höggleik sem fer fram í Mosfellsbæ.

Það verður áhugavert að sjá hvernig þeim „gamla“ gengur í stærsta móti ársins en Guðmundur Rúnar er langelstur keppenda á mótaröðinni, 45 ára. Hann sagði aðspurður um aldurinn að hann vildi frekar að fólki tali um hversu gott golf hann spilar heldur enn aldurinn.

En hvað með aldursmuninn á honum og hinum keppendunum?

„Oftast er ég nær foreldrum þeirra í aldri. Eins er líka pínu spes að vera þrír saman í ráshópi og tveir yngstu ná mér ekki samanlagt í aldri,“ segir Guðmundur og hlær.

Guðmundur Rúnar með öðrum verðlaunahöfum í Hvaleyrarbikarnum í golfi en þegar hann sá þessa mynd sagði hann að hún minnti sig á skólastjórann með nemendum sínum.