Grindvískur sigur í fyrsta leik undir stjórn Sverris
Grindvíkingar lögðu lið Vestra í gær í Subway-deild karla í körfuknattleik þegar Grindavík lék sinn fyrsta leik eftir að Sverrir Þór Sverrisson tók við liðinu.
Grindavík - Vestri 90:74
(22:23, 19:11, 30:19, 19:21)
Gestirnir hófu leikinn aðeins betur en heimamenn og náðu mest sjö stiga forskoti í fyrsta leikhluta. Eftir því sem leið á leikhlutann fóru Grindvíkingar að rétta úr kútnum og sneru dæminu sér í hag í öðrum leikhluta. Staðan í hálfleik 41:34. Grindvíkingar héldu áfram að bæta í í seinni hálfleik og unnu þriðja leikhluta með ellefu stigum en í fjórða leikhluta náðu gestirnir að minnka muninn um tvö stig og því var sextán stiga Grindavíkursigur niðurstaðan (90:74).
Eftir sigurinn er Grindavík komið í fjórða sæti Subway-deildarinnar með tuttugu stig, næst á eftir Keflavík (24 stig) og Njarðvík (26 stig).
Elbert Clark Matthews leiddi heimamenn í stigaskorun, var með 28 stig. Ólafur Ólafsson og Ivan Alcolado voru með tólf stig hvor og þeir Naor Sharabani og Kristinn Pálsson með ellefu stig hvor.
Frammistaða Grindvíkinga: Elbert Clark Matthews 28, Ólafur Ólafsson 12/9 fráköst, Ivan Aurrecoechea Alcolado 12/10 fráköst, Naor Sharabani 11/11 stoðsendingar, Kristinn Pálsson 11/4 fráköst, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 9/8 fráköst, Javier Valeiras Creus 5/6 fráköst, Kristófer Breki Gylfason 2, Magnús Engill Valgeirsson 0, Hafliði Ottó Róbertsson 0.