Grindvíkingar unnu Íslandsmeistarana í Þorlákshöfn
Grindvíkingar gerðu sér lítið fyrir og sóttu öll stigin til Þorlákshafnar í kvöld þegar Íslandsmeistarar Þórs þurftu að lúta í gras fyrir baráttuglöðum Grindvíkingum sem voru tíu stigum undir fyrir fjórða leikhluta en með góðum leik höfðu þeir fjögurra stiga sigur að lokum.
Þór Þ. - Grindavík 91:95
(17:23, 28:16, 30:26, 16:30)
Grindvíkingar byrjuðu betur í annars jöfnum fyrsta leikhluta og þegar innan við tvær mínútur voru eftir af leikhlutanum var staðan jöfn (17:17). Sitt hvor þriggja stiga karfan frá þeim Naor Sharabani og Kristófer Breka Gylfasyni kom þeim í sex stiga forystu.
Þórsarar höfðu talsverða yfirburði í öðrum leikhluta og þegar blásið var til hálfleiks höfðu þeir snúið dæminu við og náð sex stiga forskoti (45:39). Þór jók muninn í þriðja leikhluta og var komið með tíu stiga forystu fyrir síðasta leikhlutann (75:65) en þar sýndu Grindvíkingar heldur betur klærnar og unnu upp muninn og gott betur.
Þegar um tvær mínútur voru eftir af leiknum var staðan jöfn, 88:88, en þá setti Sharabani niður þrist (88:91) og bætti tveggja stiga körfu við skömmu síðar (88:93). Þórsarar skoruðu þriggja stiga körfu í blálokin (93:91) og brutu svo á Kristni Pálssyni sem setti bæði vítaskotin niður og tryggði fjögurra stiga sigur.
Grindavík er í þriðja sæti Subway-deildar karla með fjórtán stig en Þór Þorlákshöfn er í öðru með sextán stig. Keflavík er efst með átján stig og á leik til góða á Grindavík og Þór. Njarðvíkingar eru í fimmta sæti með tólf stig en þeir hafa leikið tveimur leikjum færra en Þór og Grindavík og geta því mögulega komist upp fyrir Grindavík og jafnað við Þór að stigum.
Frammistaða Grindvíkinga: Naor Sharabani 21/5 fráköst/6 stoðsendingar, Ivan Aurrecoechea Alcolado 20/12 fráköst, Ólafur Ólafsson 20/6 fráköst, Kristinn Pálsson 17/9 fráköst, Elbert Clark Matthews 7/4 fráköst, Magnús Engill Valgeirsson 5, Kristófer Breki Gylfason 5, Hilmir Kristjánsson 0, Hafliði Ottó Róbertsson 0, Hinrik Hrafn Bergsson 0.