Grindavíkurstúlkur á síðasta sjéns
Lokaumferðin í Domino´s deild kvenna fer fram í kvöld. Keflavík heimsækir Hamar heim í Hveragerði og í Grindavík verður spilað uppá sæti í undanúrslitum þegar heimastúlkur mæta Valskonum.
Keflvíkingar hafa í raun að engu að keppa í leik sínum við Hamar en liðið situr fast í 2. sæti og hafa úrslit kvöldsins engin áhrif á stöðu liðsins.
Það má aftur á móti búast við hörkuleik í Röstinni þar sem að Grindvíkingar verða að sigra lið Vals til að tryggja sér áframhaldandi þátttökurétt í Íslandsmótinu. Grindvíkingar hafa tapað síðustu 2 leikjum sínum í deildinni og hafa ekki litið vel út í sinni spilamennsku.
Það er því að duga eða drepast ef ekki á að loka fyrir körfuboltaáhorf í Röstinni þetta tímabilið en karlalið félagsins er komið í sumarfrí eftir að hafa verið sópað út af KR-ingum í 8 liða úrslitum.
Leikir kvöldsins hefjast á slaginu 19:15.