Grindavík vann á Skaganum
Grindavík vann gríðarlega mikilvægan sigur á ÍA á Skipaskaga í kvöld, 1-2. Fyrir leikinn voru Skagamenn í 11. sæti Landsbankadeildarinnar, þremur stigum á eftir Grindvíkingum, þannig að þetta var mikill botnslagur.
Guðjón Þórðarson, þjálfari ÍA, var fjarri góðu gamni þar sem hann var í leikbanni líkt og sonur hans Bjarni og Vjekoslav Svadumovic. Þórður Guðjónsson var meiddur.
Stefán Þórðarson kom heimamönnum yfir úr vítaspyrnu á 28. mínútu eftir að Orri Freyr Hjaltalín, fyrirliði Grindvíkinga, braut á Jóni Vilhelm Ákasyni í vítateig. Fram að því höfðu Skagamenn verið betri aðilinn í leiknum.
Skömmu eftir markið syrti í álinn fyrir Grindvíkinga þar sem Andri Steinn Birgisson, framherji þeirra, þurfti að fara meiddur af velli.
Engu að síður áttu þeir í fullu tré við heimamenn og komu sér í nokkur góð færi.
Það var svo eftir tæpan klukkutíma sem hinn ungi og bráðefnilegi Jósef Kristinn Jósefsson jafnaði leikinn. Hann komst inn í teiginn, lék á varnarmann og smellti boltanum í netið.
Nokkuð lifnaði yfir leiknum eftir þetta og voru færi á báða bóga áður en Jóhann Helgason kom inn á sem varamaður í lið gestanna og skoraði úr góðri sókn.
Eftir markið gekk á ýmsu og liðin sóttu til skiptis en fleiri urðu mörkin ekki.
Í samtali við Vikurfréttir sagði Orri Freyr að þessi sigur væri fyllilega verðskuldaður. „Við byrjuðum varfærnislega en svo sýndum við góðan karakter og komumst inn í leikinn og yfirspiluðum þá alveg.“
„Þetta var mikilvægur sigur fyrir okkur í botnslagnum en eins og þessi deild er eru allir leikir sex stiga leikir. Við ýttum kannski einhverjum liðum frá okkur, en við verðum að fylgja þessu eftir með fleiri sigrum.“
Þetta var fjórði útisigur Grindvíkinga í röð, en þeir hafa ekki verið eins farsælir á heimavelli. Þeir fá færi á að bæta úr því eftir viku þegar þeir fá Þrótt í heimsókn.
VF-mynd úr safni
VF-mynd úr safni