Grindavík valtaði yfir bikarmeistaranna í lokaleikhlutanum
- Grindavík komið yfir í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn
Grindavík er komið yfir í einvígi sínu gegn Stjörnunni um Íslandsmeistaratitilinn í körfuknattleik. Grindavík vann fyrsta leik liðana 108-84 og var það frábær lokaleikhluti sem varð til þess að Grindvíkingar unnu 24 stig sigur í fyrsta leik. Grindavík vann lokaleikhlutann 34-12!
Stjarnan byrjaði leikinn betur og komst í 0-7 en þá mættu Grindvíkingar til leiks og skoruðu níu stig í röð. Grindvíkingar léku vel í vörn sem sókn og voru yfir að fyrsta leikhluta loknum, 26-18.
Stjörnumenn voru betri í öðrum leikhluta og var Jarrid Fyre svo sannarlega að gera Grindvíkingum lífið leitt. Hann setti niður góða þrista og var kominn með 14 stig þegar flautað til hálfleiks. Stjörnumönnum gekk betur að finna glufur á vörn Grindvíkinga og voru yfir í hálfleik, 46-48. Aaron Broussard var með 15 stig í fyrri hálfleik hjá gulum og Samuel Zeglinski var með 11 stig.
Þriðji leikhluti var algjörlega í járnum. Liðin skiptust á að leiða leikinn og munurinn á liðinum aldrei mikill. Grindavík lenti í villuvandræðum og voru þeir Zeglinski og Sigurður Þorsteinsson snemma komnir með fjórar villur.
Grindvíkingar byrjuðu vel í fjórða leikhluta og Þorleifur Ólafsson setti tóninn með flottum þrist og það kveikti í heimamönnum sem náðu 13 stiga forystu snemma í fjórða leikhluta með frábærum kafla. Það var hreinlega allt vitlaust í Röstinni og Teitur Örlygsson, þjálfari Stjörnunnar, tók leikhlé enda hafði Stjarnan ekki skorað í leikhlutanum fram að þessu.
Skemmst er frá því að segja að Grindavík fór hreinlega á kostum í fjórða leikhluta og valtaði hreinlega yfir bikarmeistara Stjörnunnar. Lokaúrslit 108-84.
Grindavík-Stjarnan 108-84 (26-18, 20-30, 28-24, 34-12)
Grindavík: Aaron Broussard 39/12 fráköst, Jóhann Árni Ólafsson 26, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 14/7 fráköst/4 varin skot, Samuel Zeglinski 13/4 fráköst/7 stoðsendingar, Þorleifur Ólafsson 11/6 stoðsendingar, Ólafur Ólafsson 3, Jens Valgeir Óskarsson 2.
Stjarnan: Jarrid Frye 28/12 fráköst/4 varin skot, Brian Mills 19/10 fráköst/3 varin skot, Justin Shouse 19/4 fráköst/5 stoðsendingar, Marvin Valdimarsson 7/5 fráköst, Jovan Zdravevski 7, Kjartan Atli Kjartansson 2, Fannar Freyr Helgason 2/5 fráköst.
Jóhann Árni Ólafsson lék vel hjá Grindavík í kvöld og skoraði 26 stig.
Sigurður Þorsteinsson skoraði 14 stig í kvöld og var sterkur í vörninni.