Grindavík tók þetta á breidd og reynslu
Grindvíkingar fóru með 86-80 sigur af hólmi í fyrsta heimaleik sínum en gestirnir frá Keflavík máttu hrósa happi yfir því að sigurinn varð ekki stærri en þessar tölur gefa til kynna. Breidd og reynsla Grindvíkinga vóg einfaldlega of þungt og að lokum var þetta nokkuð þægilegur sigur hjá þeim í þessum fyrsta Suðurnesjaslag tímabilsins.
Ekki var eins fjölmennt og maður hefði búist við í Röstinni fyrst um sinn en fólk fór að tínast inn þegar leið á leikinn. Keflvíkingar byrjuðu leikinn með látum og Ragnar Albertsson byrjaði með þrist, en hann var í byrjunarliðinu eftir að hafa staðið sig vel á undirbúningstímabilinu. Keflvíkingar stálu svo boltanum og Charlie Parker skoraði. Maggi Gunnars fiskaði svo fagmannlega 3 vítaskot þegar hann platar Sigurð Þorsteinsson í loftið með góðri gabbhreyfingu. Flott byrjun hjá Keflvíkingum og leikurinn byrjar fjörlega.
Sigurður Þorsteinsson kemur Grindvíkingum á blað og Jóhann Árni keyrir að körfunni og fær dæmdan á sig ruðning í næstu sókn. Grindvíkingar virðast óskipulagðir í sóknarleik sínum í upphafi leiks og Keflvíkingar spiluðu öfluga vörn. Keflvíkingar byrja af krafti og staðan er 2-12 þegar 3 mínútur eru liðnar af fyrsta leikhluta.
Þá kom tvöföld skipting hjá Grindavík og þeir Þorleifur og Páll Axel koma inn fyrir Ómar og Ólaf, ekki amalegt að eiga svona menn á bekknum. Staðan er svo 6-15 þegar fyrsti leikhluti er hálfnaður og svo virðist sem Jarryd Cole eigi í smá vandræðum með að klekkja á Sigurði sem er fastur fyrir í vörninni. Keflvíkingar halda forskoti sínu þrátt fyrir taugaveiklun og mistök á báða bóga undir lok fyrsta leikhluta. Grindvíkingar ná örlítið að rétta sig af og laga stöðuna í 14-16 þegar leikhluta líkur. Sigurður Þorsteins er þá kominn með 6 stig og Maggi Gunnars með 6.
Ólafur Ólafsson límir boltann á spjaldið þegar Jarryd Cole hyggst leggja hann ofan í í rólegheitunum og fær svo hraðaupphlaup og fiskar villu, tilþrif í lagi strax í upphafi 2. leikhluta. Grindvíkingar komast yfir í fyrsta sinn þegar Þorleifur Ólafsson sem virkaði í ágætis standi þrátt fyrir meiðsli undanfarið, setur niður þrist og breytir stöðunni í 17-16. Gunnar Stefánsson svarar jafnóðum með þrist af löngu færi fyrir strákana úr Bítlabænum. Liðin skiptast á forystu og leikurinn verður ansi fjörugur í öðrum leikhluta þegar 4 mínútur eru liðnar.
Svo koma tveir stórir þristar á stuttum tíma hjá Giordan Watson og staðan er 28-29 fyrir Keflavík. Á þessum tímapunkti virðist allt stefna í jafnan og spennandi leik og staðan er jöfn, 32-32 þegar 2:30 eru eftir af fyrri hálfleik.
Tvö varin skot í röð hjá Jarryd Cole setja tóninn og hann lætur Sigurð finna fyrir sér í teignum. Keflvíkingar eru að sækja mikið af stigum af línunni og leiða 36-38 í hálfleik.
Giordan Watson er með 8 stig hjá Grindavík og sömuleiðis Sigurður Þorsteinsson og auk þess hefur Ísafjarðartröllið hirt 4 fráköst. Þorleifur er með 5 stig en hann hefur þó skotið 6 þriggjastiga skotum í fyrri hálfleik.
Hjá Keflvíkingum setti Magnús Gunnarsson upp 7 þriggjastiga skot og þar af rataði eitt þeirra í netið, hann var að hins vegar að setja vítin og stuttu skotin í og var því með 12 stig í hálfleik. Jarryd Cole var með 13 stig og 7 fráköst en hann hafði tapað boltanum fjórum sinnum. Aðrir voru ekki eins atkvæðamiklir.
Sömu byrjunarlið og áður héldu út á völlinn í síðari hálfleik. Jóhann Árni skorar yfir Ragnar og svo skorar Ómar Sævarsson og Grindvíkingar komast yfir 40 - 38. Watson stelur boltanum af Almari eftir sitt eigið vítaskot og gefur flotta stoðsendingu á Þorleif og svo virðist sem að augnablikið sé Grindavíkur megin. Það gengur ekkert í sókninni hjá Keflvíkingum og Magnús Gunnarsson er að hlaða niður múrsteinum. Svo kom að því að Magnús setti niður þrist í hraðaupphlaupi. Watson svarar og Grindavík er með 6 stiga forystu 47-41. Magnús svarar á hinum endanum með öðrum þrist, hann hættir ekkert að skjóta, þannig virkar það bara hjá svona byssum.
Grindvíkingar láta boltann ganga vel og það skilar sér í opnum þrist sem Watson setur niður. Sama gerist í næstu sókn og Páll Axel dúndrar niður þrist, staðan orðin 53 - 44 fyrir heimamenn. Keflvíkingar eiga í vandræðum í sókninni og Valur Orri er heppinn að fá vítaskot þegar virðist sem Páll Axel hafi varið þriggjstigaskot hans. Hafliði Már kemur inn hjá Keflvíkingum þegar 3:33 eftir af þriðja. Magnús með annan þrist og hann er því kominn með 21 stig. Leikurinn er hraður og fjörungur en ansi villtur um leið. Páll Axel ver laglega frá nýliðanum Hafliða sem fór ansi óákveðið upp að körfunni en ungu strákarnir virtust óöruggir í leiknum.
Staðan er 60-53 þegar síðasti leikhlutinn er óleikinn og Grindvíkingar verðast vera skrefinu á undan. Magnús Gunnarsson er sá eini sem er að taka á skarið og er með 4/13 í þristum eftir þriðja leikhluta. Risa þristur hjá Watson eftir að mínúta er liðin af síðasta leikhluta setur tóninn og munurinn er þá 10 stig 65-55 eftir að Cole svarar á hinum endanum. Magnús er að halda lífi í Keflvíkingum og setur enn einn þristinn þó að Cole sé að skila sínu. Páll Axel svarar og staðan er 68-58. Þorleifur setur einn í viðbót úr miðbæ Grindavíkur og munurinn fer í 13 stig, þar fór róðurinn að þyngjast hjá Keflvíkingum.
Magnús virtist ætla einn síns liðs að halda Keflvíkingum í leiknum og margir leikmenn þeirra eru hreinlega í feluleik. Keflvíkingar virtust játa sig sigraða á þessum tímapunti en þó voru enn tæpar 6 mínútur eftir. Staðan er 74-60 og Páll Axel er að hitna og setur þrist. Grindvíkingar láta kné fylgja kviði og Jóhann Árni sínir mikla baráttu á stuttum kafla og nokkur hraðaupphlaup breyta stöðunni í 79-62 fyrir heimamenn þegar 5 mínútur eru eftir af leiknum og þarna virðast Grindvíkingar sigra leikinn.
Það virtist allt ganga upp hjá gulum á þessum kafla og Arnar Freyr Jónsson fær dæmdan á sig ásetning eftir harkalegt brot á fyrrum félaga sínum, Sigurði Þorsteinssyni, hann misnotaði hinsvegar bæði vítaskot sín. Svo virtist sem að allt loft væri úr Keflvíkingum og ekkert að falla með þeim og breidd Grindvíkinga að sína sig. Munurinn hefði svo getað aukist hefði Sigurður Þorsteinsson sett vítin sín niður á þessum lokakafla en þau fóru nokkur forgörðum. Keflvíkingar náðu að minnka forskotið niður í 6 stig með pressuvörn í lokin en þó var sigurinn aldrei í hættu hjá Grindvíkingum sem sigruðu 86-80.
Stigin:
Grindavík: Giordan Watson 23/6/6, Páll Axel 16/5.
Keflavík: Jarryd Cole 29/16 og Magnús Þór Gunnarsson 28 (15/5 í þriggja)
Byrjunarliðin
Grindavík: Sigurður Þorsteinsson - Jóhann Árni Ólafsson - Ómar Sævarsson - Ólafur Ólafsson - Giordan Watson
Keflavík: Magnús Gunnarsson - Ragnar Albertsson - Almar Guðbrandsson - Jarryd Cole - Charlie Parker