Góður sigur Njarðvíkinga fyrir vestan
Njarðvíkingar sóttu tvö stig á Ísafirði í gær með sigri á Vestra í Subway-deild karla í körfuknattleik. Með sigrinum er Njarðvík í öðru sæti deildarinnar þegar þrjár umferðir eru óleiknar í deildarkeppninni, tveimur stigum á eftir Íslandsmeisturum Þórs Þorlákshöfn.
Vestri - Njarðvík 82:115
(20:29, 19:30, 20:30, 23:26)
Eins og tölurnar gefa til kynna voru Vestramenn lítil fyrirstaða fyrir Njarðvíkinga sem jók forystuna jafnt og þétt eftir því sem leið á leikinn. Njarðvík hafði níu stiga forskot eftir fyrsta leikhluta og þegar flautað var til leiksloka var munurinn 33 stig.
Njarðvíkingar eiga þrjá leiki eftir og standa í hörkubaráttu um deildarmeistaratitilinn við Íslandsmeistara Þórs Þorlákshöfn. Njarðvík með 28 stig, tveimur stigum á eftir Þór, Keflavík er svo í þriðja sæti með 26 stig og Grindavík er í sjöunda sæti með 20 stig og langt komið með að tryggja sig inn í úrslitakeppnina.
Frammistaða Njarðvíkinga: Mario Matasovic 26/6 fráköst, Fotios Lampropoulos 21/13 fráköst, Dedrick Deon Basile 20/8 stoðsendingar, Nicolas Richotti 10/6 fráköst/10 stoðsendingar, Logi Gunnarsson 10, Maciek Stanislav Baginski 8/7 fráköst, Ólafur Helgi Jónsson 8, Jan Baginski 6, Elías Bjarki Pálsson 6/5 fráköst, Rafn Edgar Sigmarsson 0.