Góð byrjun hjá Suðurnesjaliðunum
Grindavík og Keflavík með sigra í úrslitum 1. deildar
Lið Grindavíkur og Keflavíkur fóru vel af stað í úrslitakeppninni í 1. deild kvenna í fótbolta með því að sigra í fyrstu leikjum sínum í 8-liða úrslitum.
Grindvíkingar unnu öruggan 0-4 sigur gegn Víkingum á Ólafsvík. Staðan var orðin 0-3 í hálfleik þar sem Marjani Hing-Glover skoraði tvívegis og Sashana Cambell bætti einu marki við. Rakel Lind Ragnarsdóttir skoraði svo fjórða markið sjö mínútum fyrir leikslok og tryggði öruggan sigur Grindvíkinga.
Keflvíkingar áttu í aðeins meira basli með Tindastólskonur sem mættu á Nettóvöllinn. Gestirnir komust tvisvar yfir í leiknum en það var Amber Pennybaker sem skoraði sigurmark Keflvíkinga á 85. mínútu. Þær Katla María Þórðardóttir og Sveindís Jane Jónsdóttir skoruðu líka fyrir Keflvíkinga í leiknum.
Seinni leikir liðann fara fram á miðvikudaginn komandi. Grindvíkingar leika þá á heimavelli en Keflvíkingar á Sauðárkróki.