Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Fyrirliði Njarðvíkur til Keflvíkinga
Laugardagur 27. nóvember 2010 kl. 12:28

Fyrirliði Njarðvíkur til Keflvíkinga

Kristinn Björnsson fyrirliði knattspyrnuliðs Njarðvíkur skrifaði í gær undir samning við Keflavík en hann hefur allan sinn feril spilað með Njarðvík.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Kristinn er 23 ára gamall, fæddur árið 1987. Hann hefur leikið 124 leiki með Njarðvík í deild og bikar og skorað 8 mörk.

,,Kristinn er öflugur leikmaður sem getur spilað flest allar stöður og mun styrkja okkar lið mikið. Það er ánægjulegt að vera búið að fá þennan sterka leikmann til okkar og bjóðum við hann velkominn í hópinn," sagði í tilkynningu frá Keflavík.

,,Þetta er spennandi kostur og spennandi lið. Ég er uppalinn í Njarðvík og það er líka stutt að fara yfir," sagði Kristinn Björnsson við Fótbolta.net í gær eftir að hann hafði gengið til liðs við Keflavík frá Njarðvík þar sem hann hefur verið fyrirliði. En er ekki neinn rígur á milli þessara nágrannaliða?

,,Nei, ég myndi ekki segja það. Allavega finn ég ekki fyrir honum. Það getur vel verið að það sé hjá einhverjum en allavega ekki hjá mér. Menn skilja mig alveg, vona ég allavega."

Verður að standa sig til að komast í lið
Njarðvík féll úr 1. deildinni og leikur því í 2. deild á næstu leiktíð svo það lá beinast við að Kristinn nýtti hæfileika sína og léki í sterkari deild.

,,Mér fannst það góður kostur. Ég ætlaði mér náttúrulega betri hluti síðasta sumar og liðið líka en þetta var besti kosturinn að gera þetta núna fyrst ég ætlaði mér að gera þetta á annað borð," sagði hann en hvernig metur hann möguleika sína í Keflavíkur liðinu?

,,Maður verður að standa sig til að komast í lið. Það er ekkert annað en það. Það er Willums að ráða hverjir byrja en ég verð að gera mitt besta og vonandi uppsker ég þá eftir því."

Fer í hægri bakvörð og Guðjón á miðjuna
Kristinn er fjölhæfur leikmaður og getur spilað ýmsar stöður á vellinum en hvar sér Willum hann fyrir sér í Keflavíkur liðinu?

,,Hann er aðallega að hugsa um mig í hægri bakverði," sagði Kristinn en Guðjón Árni Antoníusson hefur leikið í þeirri stöðu í Keflavík undanfarin ár. ,,Hann er búinn að vera að spila inni á miðjunni núna í síðustu leikjum en annars veit ég ekkert. Ég gæti alveg leyst miðjuna en eins og hann segir þá hugsar hann mig í hægri bak og ég er tilbúinn í það."

Nóg að vera með hausverk yfir bókunum
Þrjú félög höfðu haft samband við Kristinn og reyndu að fá hann í sínar raðir en eins og áður kom fram hér á Fótbolta.net æfði hann með Keflavík og Fylki. En var erfitt að gera upp hug sinn?

,,Já, það var það. Allavega komu tvö sterklega til greina og það var mikill hausverkur á tímabili. Það var fínt að klára þetta. Ég er að fara í próf núna svo ég verð laus alveg við auka hausverkinn með þessu, það er nóg að vera með hausverk yfir að liggja yfir bókunum."

Keflavík endaði í 6. sæti deildarinnar með 30 stig í sumar sem þóttu vonbrigði enda stefndi liðið hærra.

,,Það er alltaf pressa á að gera betur en á síðasta tímabili og ég er tilbúinn að vera hluti af því," sagði Kristinn sem mun spila undir stjórn Willum Þórs Þórssonar hjá Keflavík en þar er þjálfari sem hefur unnið allt sem er í boði hér á landi og hefur heldur betur sannað sig.

,,Það var spennandi kostur. Hann er mjög fær og hefur sannað sig sem þjálfari. Ég ætla að bæta mig og hann getur bætt mig sem leikmann, ég hef fulla trú á því. Við ræddum málin lauslega og hann sagði að honum þætti ég spennandi leikmaður og væri til í að sjá framhald af því," sagði Kristinn að lokum við Fótbolta.net.