Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Fjölmenni á 50 ára afmæli GS
Við þetta tækifæri skrifaðI formaður GS undir afrekssamninga við þrjá unga kylfinga í klúbbnum, þau Laufeyju Jónsdóttur, Róbert Smára Jónsson og Karen Guðnadóttur.
Fimmtudagur 13. mars 2014 kl. 09:10

Fjölmenni á 50 ára afmæli GS

Kylfingar í GS léku 23 þús. golfhringi árið 2013 en það samsvarar 5,5 hringjum í kringum hnöttinn.

Vel á annað hundrað manns sóttu Golfklúbb Suðurnesja heim í tilefni 50 ára afmælis sem var fagnað með „opnu húsi“ í félagsheimili klúbbsins í Leiru sl. sunnudag. GS varð fimmtugur 4. mars og var stofnaður þann dag 1964.

Friðjón Einarsson, formaður GS sagði sögu klúbbsins einstaka og bæri keim af ótrúlegu brautryðjendastarfi og mikilli sjálfboðavinnu félaga í hálfa öld.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Fimm félagar klúbbsins fengu gullmerki Golfsambands Íslands fyrir góð störf. Þetta voru þau Einar B. Jónsson, vallarstjóri, Gunnar Þórarinsson og Sigurður Garðarsson formenn GS síðasta áratuginn og síðan afrekskylfingarnir Sigurður Albertsson og Karen Sævarsdóttir. Haukur Örn Birgisson, forseti GSÍ afhenti fimmmenningunum gullmerki fyrir ómetanlegan þátt þeirra í starfi og sögu GS.

Haukur sagði í ræðu sinni að GS væri búið að vera einn af öflugustu golfklúbbum landsins í hálfa öld og sá klúbbur sem hefði verið einna duglegastur að halda mót á vegum Golfsambandsins. Þá hefði klúbburinn einnig verið einn vinsælasti „vina“-klúbbur landsins og verið virkur þátttakandi í þeirri nýbreytni sem kom upp vegna mikillar fjölgunar kylfinga hér á landi.

Við þetta tækifæri skrifaðI formaður GS undir afrekssamninga við þrjá unga kylfinga í klúbbnum, þau Laufeyju Jónsdóttur, Róbert Smára Jónsson og Karen Guðnadóttur.

Þá skrifuðu Friðjón Einarsson, formaður GS og Magnús Stefánsson bæjarstjóri í Garði undir viljayfirlýsingu um frekara samstarf.

Gunnar Þórarinsson, formaður íþrótta- og tómstundaráðs Reykjanesbæjar flutti GS kveðju frá bæjarfélaginu og fór aðeins yfir sögu golfs í Leirunni en Gunnar var formaður klúbbsins í fimm ár. Gunnar kom inn á miklar vinsældir íþróttarinnar og hversu góð aðstaða væri hjá klúbbnum á Hólmsvelli í Leiru.

Jóhann B. Magnússon, formaður Íþróttabandalags Reykjanesbæjar afhenti klúbbnum hornstein til  merkis um að Golfklúbbur Suðurnesja væri mikilvægur hlekkur í okkar samfélagi, sannkallaður hornsteinn í okkar íþróttahéraði.

Jóhann sagði að klúbburinn væri orðinn að glæsilegu félagi sem sigldi lygnan sjó með góðri áhöfn, hvort sem litið væri til stjórnarfólks, félaga, öflugri sveit sjálfboðaliða, góðu stafsfólki og vildarvinum.

Jóhann nefndi áhugaverðar tölur í starfsemi GS en á síðasta ári voru leiknir yfir 23 þús. golfhringir en það samsvarar fimm og hálfum hring í kringum hnöttinn.

Hér má sjá myndasafn frá afmælishófinu.

Gullmerkjahafarnir með Hauki Erni forseta GSÍ lengst til vinstri, Sigurður, Karen, Gunnar, Einar og Sigurður.

Karen Sævarsdóttir, sigursælasti kylfingur golfs á Íslandi, skar fyrsta bitann í afmælistertu GS.

Jóhann B. Magnússon afhenti Friðjóni fyrir hönd GS, hornstein enda sé félagið hornsteinn í íþróttahéraði.

Gestir og félagar höfðu gaman af því að skoða gamlar fundargerðarbækur og myndir.

Friðjón og Magnús bæjarstjóri Garðs tókust í hendur vegna samnings milli GS og Garðs.

Vel á annað hundrað manns sóttu GS heim í tilefni 50 ára afmælis klúbbsins. VF-myndir/Páll Orri og pket.

Hér má sjá myndasafn frá afmælishófinu.