Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Finnur ekki fyrir neinni pressu
Ragnari er ætlað stórt hlutverk hjá Þórsurum sem eru líklegir til þess að sigra 1. deildina. Þjálfarinn hefur miklar mætur á Njarðvíkingnum. VF-myndir Páll Jóhannesson.
Laugardagur 31. október 2015 kl. 12:39

Finnur ekki fyrir neinni pressu

- segir Njarðvíkingurinn Ragnar Helgi Friðriksson sem spreytir sig með Þór á Akureyri í 1. deild körfuboltans

Njarðvíkingurinn Ragnar Helgi Friðriksson er ungur og efnilegur körfuboltamaður sem vonast til þess að öðlast dýrmæta reynslu með því að taka slaginn með Þór Akureyri í 1. deildinni í vetur. Þrátt fyrir velgengni pabba hans og bróður á vellinum finnur hann ekki fyrir pressu. Nema þá kannski frá sjálfum sér.

Ragnar sem var sigursæll með yngri flokkum og unglingalandsliðum á ekki langt að sækja hæfileikana. Hann er sonur Friðriks Ragnarssonar, fyrrum þjálfara og margfalds meistara með Njarðvík, KR og Grindavík. Bróðir hans Elvar er landsliðsmaður og fyrrum lykilmaður í liði Njarðvíkur áður en hann hélt til Bandaríkjanna í háskólaboltann. Ragnar hefur þegar fengið nasaþefinn af úrvarlsdeildarbolta með Njarðvík og átti lipra spretti með liðinu á síðasta tímabili. Þá var liðið krökkt af leikstjórnendum þar sem Stefan Bonneau fór fremstur í flokki og mínúturnar fáar fyrir Ragnar. Nú eru þeir allir farnir á braut og eftir standa 17 ára nýliði og Logi Gunnarsson sem deila stöðunni að mestu leyti.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Tækifæri eftir meiðsli Bonneau

Njarðvíkingar gerðu ráð fyrir því að Stefan Bonneau yrði leikstjórnandi liðsins á tímabilinu sem var að hefjast og því var gripið til þess ráðs að lána Ragnar þangað sem hann gæti öðlast reynslu. Stefan meiddist illa eins og kunnugt er og hafa Njarðvíkingar verið í basli með leikstjórnendastöðuna síðan. „Að sjálfsögðu kitlar það að taka slaginn með Njarðvík. Ég tók þessa ákvörðun og ég ætla að halda mig við hana. Maður er ekkert að svekkja sig á því, það koma fleiri tækifæri,“ segir Ragnar sem er ekki að dvelja mikið við það að hann gæti verið að leika stóra rullu hjá uppeldisfélaginu um þessar mundir.

„Þetta var alls ekki erfið ákvörðun. Mér fannst þetta hárrétti tíminn til að taka þessa áskorun að fara norður og fá að þroskast sem einstaklingur og leikmaður undir stjórn Benna. Þetta var held ég hárrétt ákvörðun og mig langaði að prófa eitthvað nýtt.“  Fyrir hjá Þórsurum hittir hann Njarðvíkinginn Elías Kristjánsson og Keflvíkinginn Þröst Leó Jóhannsson. Þeir hafa auðveldað honum aðlögunina fyrir norðan. „Það er mjög fínt að spila með Þresti en hann er algjör snillingur. Þvílíkur liðsmaður bæði utan vallar sem innan og hann kann sannarlega að rífa menn upp. Hann var stór ástæða fyrir því að ég kom hingað norður en ég hef alltaf kunnað mjög vel við hann,“ segir Ragnar um félaga sinn úr Reykjanesbæ.

Þórsarar unnu sinn fyrsta leik í 1. deildinni á Ísafirði en þar lék hinn 18 ára gamli Ragnar mest allra, eða 38 mínútur og stjórnaði leik sinna manna eins og herforingi. „Það er ekki slæmt að fá svona margar mínútur. Ég vona að þetta sé það sem koma skal en ég var að sækjast eftir miklum spilatíma. Benni sýnir mér mikið traust og það er gott að fá svoleiðis frá þjálfaranum,“ segir Ragnar en þjálfarinn er hinn reyndi Benedikt Guðmundsson sem hefur alið af sér marga af bestu leikmönnum þjóðarinnar í gegnum tíðina.

Leikstjórnandinn kraftmikli ætlar að nýta tímann vel fyrir norðan og vinna í því að bæta leik sinn. Í fyrsta leiknum sínum skoraði hann 14 stig, gaf 6 stoðsendingar og fiskaði 11 vítaskot. „Ég stefni á að verða betri leikstjórnandi og stýra leiknum vel. Ég reyni að sætta mig bara við opnu skotin og keyra meira á körfuna og búa til fyrir aðra.“

Eins og áður segir eru ansi góðir körfuboltamenn í fjölskyldunni. Það setur enga pressu á ungar herðar Ragnars. „Nei alls ekki. Þeir setja enga pressu á mann. Það er bara aðallega pressa frá manni sjálfum. Þeir hafa náð þetta langt og svo er bara undir mér komið að gera mitt besta og reyna að gera eitthvað af viti. Ég finn alla vegana ekki fyrir neinni pressu.“

Bræður munu berjast

Þremur árum munar á þeim bræðrum Ragnari og Elvari og í gegnum tíðina hefur mörg orrustan verið háð þeirra á milli. „Það hefur oft endað í slagsmálum og rifrildum en satt best að segja þá hef eg aldrei unnið hann í „einn á einn.“ Það er mjög erfitt að segja þetta en það kemur fljótlega. Hann kann svo vel á mig að þegar við förum spilum reynir hann að pirra mig og þá tapa ég alltaf. Ég á mjög erfitt með skapið á mér á móti honum. Annað hvort hætti ég bara og labba heim eða hann vinnur mig með einhverju „trashtalki“.

Elvar viðurkennir að beita bolabrögðum til þess að vinna litla bróður. „Hann hefur aldrei verið jafn nálægt því að vinna mig og í sumar. Hann var oftast með yfirhöndina en ég vildi alls ekki tapa, því beitti ég allskonar brögðum. Ef ég á að vera hreinskilinn þá býst ég við að hann muin taka einhverja leiki þegar ég spila við hann næsta sumar. Hann er að fara á að stað sem hann er að spila helling og ég býst við að hann muni taka miklum framförum,“ segir Elvar.

Alltaf logn á Akureyri

Ragnari líkar lífið vel á Akureyri og segir bæjarbúa hafa tekið sér opnum örmum. Hann segir veðrið vera það besta við Akureyri. „Það er alltaf logn hérna og mjög fínt veður. Svo er það bara bærinn sjálfur, ég elska þennan bæ. Allt öðruvísi menning hérna en heima, þetta er eins og að vera í útlandinu bara,“ segir Ragnar að lokum.

Getur orðið topp leikstjórnandi

Benedikt Guðmundsson þjálfari Þórs um Ragnar: „Ragnar hefur marga kosti sem leikmaður sem ég horfi í með mína leikstjórnendur. Hann er svakalega fljótur og með góða boltatækni. Hann er duglegur að spila menn uppi en getur líka skorað og tekið af skarið. Hann hefur mikið keppnisskap og sigurvilja. Hann er hörkutól og keppnismaður á velli. Hann nýtur þess að hafa fengið gott körfuboltauppeldi í gegnum tíðina og með meiri reynslu og smá fínpússun á hans leik getur hann orðið topp leikstjórnandi. Eftir að hafa kynnst honum og unnið með honum í haust þá hef ég gríðarlega trú á þessum strák og hans hæfileikum.“

Verður vonandi betri en ég

Elvar um Ragnar bróður sinn: „Margir segja að við séum með líka takta á vellinum en ef ég ætti að bera okkur saman þá myndi ég segja að hann væri betri varnarmaður og með meiri sprengikraft. Ég en held að ég sé betri skotmaður en hann. Annars þegar hann fær reynslu á því að spila í efstu deild þá hef ég trú á því að hann verði mjög góður og vonandi betri en ég.“

Viðtal: Eyþór Sæmundsson.