Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Endurkomusigur tryggði Grindavík sæti í úrslitakeppninni
Grindvíkingar ærðust þegar Elbert Clark Matthews setti niður lokakörfuna. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 25. mars 2022 kl. 23:34

Endurkomusigur tryggði Grindavík sæti í úrslitakeppninni

Meistarataktar hjá Njarðvíkingum í Ljónagryfjunni

Mögnuð endurkoma Grindvíkinga gegn ÍR á heimavelli í kvöld tryggði þeim sæti í úrslitakeppni Subway-deildar karla. Eftir að hafa lent átján stigum undir í fyrri hálfleik var það að lokum Elbert Clark Matthews sem kláraði leikinn með þriggja stiga körfu á síðustu sekúndu og fögnuður Grindvíkinga í stúkunni var ógurlegur.

Grindavík - ÍR 89:86

(20:22, 18:23, 28:16, 23:25)
Sverrir Þór lítur áhyggjufullur á klukkuna þegar leikurinn var við það að fjara út.

Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Grindvíkinga var að vonum sáttur að leikslokum þegar Víkurfréttir ræddu við hann:

„Það kom skelfilegur kafli þarna í byrjun annars leikhluta. Þá vorum við alveg flatir og það voru bæði opin skot og opið upp að körfu. Svo spýttu menn aðeins í, kom kraftur í okkur undir lok annars leikhlut og við fylgdum því vel eftir í seinni hálfleik.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það er óhætt að segja því Grindvíkingar lentu átján stigum undir í öðrum leikhluta (27:45) en þeir náðu muninum niður í sjö stig með því að gera ellefu síðustu stig leikhlutans, þrjá þrista og tveggja stiga körfu. Staðan í hálfleik 38:45.

Það var svo Elbert Clark Matthews sem skoraði þrjár þriggja stiga körfur í lok leiksins og skóp sigur Grindavíkur.

„Við vorum í svona spennuleik líka í síðasta leik, í Garðabæ, þá náði hann ekki að klára leikinn fyrir okkur,“ segir Sverrir. „Þetta er bara okkar lykilmaður, hann var búinn að setja tvær í röð þarna rétt áður og hann á að klára svona leiki.“

Þetta er það sem þið þurftuð til að komast inn í úrslitakeppnina?

„Já, nú reynum við að komast ofar á töfluna. Við eigum náttúrlega tvö sterkustu liðin eftir, Keflavík og Þór [Þorlákshöfn], við fáum bara alvöru próf fyrir úrslitin. Fínt að fá að mæta þessum sterku liðum og sjá hvar við stöndum. Við þurfum að spila mikið betur en þetta í næstu leikjum, það er alveg klárt. Við kæmumst ekki upp með að leika svona á móti þessum sterku liðum eins og við lékum í öðrum leikhluta í kvöld,“ sagði Sverrir Þór að lokum og segist hlakka til úrslitakeppninnar.

Frammistaða Grindvíkinga: Elbert Clark Matthews 35, Ivan Aurrecoechea Alcolado 19/16 fráköst, Naor Sharabani 14/6 stoðsendingar, Kristófer Breki Gylfason 9, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 5, Ólafur Ólafsson 3, Javier Valeiras Creus 2/4 fráköst, Kristinn Pálsson 2, Magnús Engill Valgeirsson 0, Hafliði Ottó Róbertsson 0, Hinrik Hrafn Bergsson 0.


Njarðvík - Stjarnan 91:83

(28:15, 23:21, 30:27, 10:20)
„Super Mario“ var öflugur í vörn og sókn, með 25 stig, tíu fráköst og 28 framlagspunkta.

Njarðvíkingar sýndu meistaratakta í Ljónagryfjunni þegar þeir tóku á móti Stjörnunni. Stjarnan átti engin svör við baráttugleði Njarðvíkinga sem sýndu frábæran leik í vörn og sókn.

Njarðvíkingar tóku forystu á fyrstu mínútu og höfðu náð þrettán stiga forskoti eftir fyrsta leikhluta. Þeir juku forskotið jafnt og þétt og náðu mest nítján stiga forystu (65:46) í þriðja leikhluta. Njarðvíkingar voru rólegir í fjórða leikhluta og höfðu að lokum öruggan átta stiga sigur (91:83).

Maciek Baginski átti góðan leik í kvöld og skilaði tuttugu stigum í hús.

Frammistaða Njarðvíkinga: Mario Matasovic 25/10 fráköst, Maciek Stanislav Baginski 20, Dedrick Deon Basile 14/5 fráköst/9 stoðsendingar/5 stolnir, Nicolas Richotti 11/6 fráköst/5 stoðsendingar, Ólafur Helgi Jónsson 8/4 fráköst, Fotios Lampropoulos 8/7 fráköst, Logi Gunnarsson 5/4 fráköst, Elías Bjarki Pálsson 0, Jan Baginski 0, Rafn Edgar Sigmarsson 0.


Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, kíkti á leikina í Grindavík og Njarðvík eins og sjá má á myndasöfnum neðar á síðunni.

Grindavík - ÍR (89:86) | Subway-deild karla 25. mars 2022

Njarðvík - Stjarnan (91:83) | Subway-deild karla 25. mars 2022

Tengdar fréttir