Elvar Már kominn í ítölsku deildina
Njarðvíski landsliðsbakvörðurinn Elvar Már Friðriksson hefur fært sig um set og er genginn til liðs við Derthona Basket sem leikur í efstu deild á Ítalíu.
Elvar Már, sem gekk til liðs við belgíska liðið Antwerp Giants á síðasta ári, hefur staðið sig vel í BNXT-deildinni og er næststoðsendingahæsti leikmaður deildarinnar, með 7,5 stoðsendingar að meðaltali í leik.
Derthona Basket er á fysta ári sínu í efstu deild ítalska körfuboltans og hefur gengið vel á tímabilinu. Liðið situr í fimmta sæti auk þess að hafa endað í öðru sæti ítalska bikarsins fyrr á tímabilinu. Liðið er því í góðum möguleika á að leika í úrslitakeppni deildarinnar, strax á sínu fyrsta tímabili. Mikið fé hefur verið lagt í félagið á undanförnum árum og er yfirlýst stefna stjórnenda þess að koma liðinu í Evrópukeppni innan fárra ára. Elvar hefur þegar fengið leikheimild í ítölsku deildinni og mun því koma til með að styrkja liðið fyrir úrslitakeppnina.