Ég er búin að bæta mig miklu meira hér en nokkurn tíma áður
Helena Rafnsdóttir var einn lykilleikmanna kvennaliðs Njarðvíkur þegar liðið varð Íslandsmeistari í körfuknattleik fyrir tveimur árum. Eftir það tímabil hélt hún út til Bandaríkjanna þar sem hún stundar nám í háskóla í Jacksonville í Florida samhliða því að spila með körfuboltaliði skólans. Víkurfréttir slógu á þráðinn til Helenu skömmu fyrir jól og fengu að heyra hvernig hún hefði það þarna úti.
„Ég hef það mjög fínt. Þetta er allt öðruvísi en heima en hefur sína kosti og galla finnst mér, ég er allavega að fíla þetta mjög vel.
Þetta er náttúrlega allt annar heimur fyrir þig, bæði námslega en kannski fyrst og fremst sem afreksmanneskja í íþróttum. Hvernig er þetta?
„Maður sér ekki muninn fyrr en maður kemur í þetta umhverfi. „Standardinn“ hér er svo miklu hærri, heima geta þjálfarar ekki verið með þennan „standard“ en hérna úti eru þeir í fullri vinnu. Þetta er í raun og veru smá atvinnumennska. Æfingar eru allt öðruvísi, maður þarf alltaf að vera hundrað prósent til í hvað sem er.“
En þú þarft á sama tíma að skila árangri í náminu.
„Já, það er líka pressa á því. Það er alveg flókið að blanda þessu tvennu saman en ef maður er skipulagður og sinnir báðu virkar það alveg. Við æfum frá ellefu til þrjú en stundum mætir maður klukkutíma fyrr ef maður þarf að fara í einhverja meðferð. Svo höfum við þurft að ferðast rosalega mikið upp á síðkastið í allskonar leiki, sem er líka gaman.
Við fórum upp til Gonzaga fyrir nokkrum vikum, sem er í Washington-fylki á vesturströndinni. Þá þurftum við að fljúga fyrst í fjóra og hálfan tíma og svo í tvo – þetta var bara eins og að fara heim. Svo fórum við niður til USF [University of South Florida], sem er ekkert mjög langt frá okkur, við fórum þangað með rútu sem tók um fimm tíma. Annars fljúgum við í þessa lengri leiki.“
Hvernig gengur námið?
„Það gengur mjög vel. Þessi önn var mjög krefjandi af því að ég skipti alveg um námsbraut. Þannig að ég þurfti að taka mjög marga aukaáfanga. Ég er búin með hana núna þannig að ég get farið að fókusa alveg á körfuna [viðtalið var tekið strax eftir prófin hjá Helenu]. Við erum að keppa 20. og 29. desember, fáum frí frá 21. og erum á æfingu þann 26. þannig að það tekur því ekki að fara heim. Fjölskyldan mín ætla að koma og verja jólunum með mér hérna, þau koma þann 21. og verða fram yfir áramót, til sjötta janúar – þau verða mjög lengi, sem er alveg geggjað.“
Námið gengur vel hjá Helenu sem er í næringarfræði og stefnir á mastersnám í matvælafræði, að öllum líkindum heima á Íslandi.
„Þetta eru fjögur ár í heildina hér úti. Fyrsta árið er svolítið eins og blanda af síðasta ári í framhaldsskóla og háskóla, síðustu þrjú árin eru svo eins og háskólanám svo núna er ég alveg á háskólastigi. Ég er í næringarfræði og svo er planið að taka master einhvers staðar, líklega heima, í matvælafræði.“
Mikill aðstöðumunur
Fylgist þú eitthvað með körfunni hérna heima, hvernig stelpunum gengur?
„Já, ég fylgist með inn á milli en ég get ekki sagt að ég horfi á hvern einasta leik – ég hef ekki tíma í það en væri alveg til í það. Ég les körfuboltafréttir að heiman og reyni helst að fylgjast með Njarðvík, svo horfi ég á Körfuboltakvöld þegar ég get.“
Það er munur á áhorfendafjölda á karla- og kvennaleikjum, það á örugglega alltaf eftir að vera þannig, en fyrir utan það þá erum við jafnvel að fá betra utanumhald heldur en strákarnir. Það er lögð gríðarlega mikil áhersla á kvennakörfuna hérna og algert jafnræði.
Þegar ég fór út fannst mér þetta vera að lagast hjá Njarðvík og ástandið þar vera orðið fínt, sérstaklega síðustu tvö árin, en það er svakalegur munur á stöðunni hér úti og heima.“
Helena leggur áherslu á að henni finnist félögin vera að gera vel fyrir bæði karla og konur en henni finnst sérsamböndin vera eftir á í þessum málum.
Hvernig er það með landsliðsmál, fylgjast landsliðsþjálfarar með ykkur krökkunum sem eruð úti í háskólaboltanum?
„Sko, ég veit það ekki en ég myndi halda það því það er orðið svo algengt núna að fólk sé að fara út í nám. Ég sé alveg rosalega marga, nánast bara alla, vera að skrifa undir hjá umboðsmönnum og reyna að komast út. Ég held að þetta sé þróunin, ég er búin að bæta mig miklu meira hér en ég gerði nokkurn tíma áður. Þetta er allt öðruvísi, hér er mikið fókuserað á smáatriði og ef maður gerir eitthvað rangt er farið að vinna í því um leið. Heima eru æfingar frjálsari en hérna er þetta allt í fastari skorðum. Ég held að sama hvert þú farir í raun og veru þá munt þú bæta þinn leik. Þannig að ég myndi halda að landsliðsþjálfarinn sé að fylgjast með – en ég veit það ekki. Þú þarft auðvitað alltaf að sanna þig en á meðan maður er í þessu námi þá getum við ekki tekið þátt í landsliðsverkefnum, við erum sjálf að keppa og svo eru það prófin og allt það.“
Hvað er svo planið næsta sumar, ætlarðu bara að koma heim og vinna?
„Ég kem bara heim í einhverjar sex vikur. Við fáum að fara heim eftir lokaprófin og svo þarf ég að vera mætt aftur í lok júní. Ég fæ svo aftur að fara heim í byrjun ágúst í tvær vikur en svo er ég farin alveg aftur út. Þetta er því ekkert rosalegt sumarfrí en ætli ég vinni ekki eitthvað og svo verð ég að æfa mikið sjálf og eitthvað að mæta á æfingar hjá Rúnari [Inga Erlingssyni, þjálfara Njarðvíkur]. Svo kem ég hingað út og það fer allt á fullt. Á sumrin er mjög mikil áhersla lögð á hlaup, þol og lyftingar. Meira en körfuboltahliðina.
Ég hef aldrei upplifað svona. Við förum í hlaupapróf í byrjun september og ef þú nærð því ekki í fyrstu atrennu þá heldur þú áfram þar til þú nærð því. Í ár var þetta öðruvísi. Þá hlupum við fjórum sinnum þrjú hundruð metra á hlaupabraut en venjulega er þetta gert á velli, þá þarf maður alltaf að vera að snúa við, þá á maður að ná að hlaupa þrjú hundruð metra á mínútu og færð mínútu hvíld milli ferða. Við fengum nýtt þjálfarateymi í vor og þeir gerðu þetta hlaupapróf á hlaupabraut svo það er væntanlega aðeins auðveldara. Ég hef aldrei farið í svona erfið hlaupapróf – en maður er náttúrlega í geggjuðu formi eftir á. Það er auðvitað tilgangurinn með þessu,“ segir Helena að lokum og hlær.