Efnilegir Keflvíkingar komnir á samning
Sigurbergur og Hilmar skrifuðu undir
Keflvíkingar hafa samið við tvo af efnilegri knattspyrnumönnunum hjá félaginu. Þeir Sigurbergur Bjarnason og Hilmar Andrew McShane, skrifuðu báðir undir þriggja ára leikmannasamninga við Keflavík. Þeir félagar eru fæddir árið 1999 og eru því yngstu leikmennirnir sem eru á samningi hjá Keflavík.
Þeir Sigurbergur og Hilmar léku báðir með 3. flokki í sumar. Sigurbergur var fyrirliði 4. flokks Keflavíkur sem varð Íslandsmeistari árið 2013 en Hilmar gekk til liðs við Keflavík á þessu ári frá Grindavík. Hann lék í síðasta leik Keflavíkur í Pepsi-deildinni í sumar og varð þar með yngsti leikmaður efstu deildar frá upphafi. Sigurbergur og Hilmar voru í U-16 ára landsliði Íslands sem lék á Ólympíuleikum æskunnar í Kína í sumar og vann þar bronsverðlaun. Piltarnir eiga ekki langt að sækja knattspyrnuáhugann en Sigurbergur er sonur Bjarna Jóhannssonar þálfara KA og faðir Hilmars er Paul McShane, fyrrum leikmaður Keflavíkur.