Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Draumur Víðismanna varð að martröð
Laugardagur 16. september 2017 kl. 17:20

Draumur Víðismanna varð að martröð

Magni frá Grenivík tapaði fyrir Vestra í toppbaráttu 2. deildar í dag. Víðismenn þurftu einmitt að treysta á tap Magna og vinna sjálfir til að fá hreinan úrslitaleik í Garðinum um næstu helgi milli Víðis og Magna um sæti í Inkasso-deildinni að ári.

Draumurinn um úrslitaleik í Garðinum varð að hreinni martröð í Mosfellsbænum í dag. Þangað voru Víðismenn mættir til þess að láta taka sig í bakaríið. Afturelding fór með 5-1 sigur af Víði.

Víðismenn skoruðu sitt mark í leiknum og komu stöðunni í 3-1 á 58. mínútu. Við þetta virtust Víðismenn hressast og þeir skoruðu aftur mínútu síðar, að vísu í eigið mark. Þar með var Víðismönnum öllum lokið og þeir sáu ekki til sólar það sem eftir lifði leiks.

Víðismenn verða því áfram í 2. deildinni að ári og mæta þar m.a. Þrótti úr Vogum, sem tryggði sér sæti í deildinni í dag með glæstum sigri á Reyni Sandgerði, 5-0 í Vogum. Reynir er hins vegar fallinn í 4. deildina.

Ein umferð er eftir í 2. deildinni þar sem Víðir og Magni mætast á Nesfisksvellinum í Garði næsta laugardag.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024