Darboe: Vinn daglega að því að bæta minn leik
Bakvörðurinn danski Adama Darboe var í úrvalsliði Iceland Express deildar karla í körfuknattleik í dag fyrir umferðir 9-15 í deildarkeppninni. Adama hefur leikið gríðarlega vel fyrir Grindvíkinga að undanförnu og hefur stóraukið framlag sitt til liðsins. Adama sagðist ekki hafa verið nægilega ánægður með fyrri hlutann af leiktíðinni hjá sér og bætti við sig snúning á æfingum og í lyftingasalnum.
,,Í upphafi núverandi leiktíðar fannst mér ég ekki vera nægilega grimmur í mínum leik og var ekki að taka þau skot sem ég átti að taka. Nú hef ég varið langvinnum stundum við lyftingar og hef verið að æfa vel. Þá hef ég verið að reyna að bæta líkamlegan styrk og snerpu, líka þriggja stiga skotin mín sem og gegnumbrotin upp að körfunni og hef unnið daglega að því að bæta minn leik,” sagði Adama sem hefur síðustu tvö ár verið viðriðinn danska landsliðshópinn.
,,Vonandi er ég að verða öruggur í 24 manna hópinn því ég hef verið þar síðustu tvö ár en ég stefni að því að verða fastamaður í 12 manna liðinu,” sagði Adama sem frá því í október hefur bætt sig um rúman helming í framlagsjöfnu sinni en það er tölfræði jafna sem reiknar út og gefur leikmanni einkunn/stig fyrir frammistöðu sína í leikjum.
Hafa Grindvíkingar það sem til þarf í ár til þess að klára Íslandsmótið?
,,Ekki spurning, við erum með sama hóp frá því í fyrra og höfum bætt við okkur Igor Beljanski og Helga Jónasi Guðfinnssyni og þetta hefur skapað mun meiri samkeppni á æfingum hjá okkur,” sagði Adama sem hefur blómstrað síðan Helgi Jónas fór að æfa með Grindvíkingum að nýju.
,,Það er gaman að spila á móti Helga á æfingum en hann er virtur leikmaður með mikla reynslu hér heima og erlendis. Ég get lært mikið af honum daglega sem hjálpar mér helling í mínum leik,” sagði Darboe sem gerir að jafnaði 12,2 stig að meðaltali í leik fyrir Grindavík.
Darboe er í 7. sæti yfir flesta stolna bolta að meðaltali í leik þar sem hann stelur að jafnaði 2,43 boltum í leik. Þá er Adama í 4. sæti yfir flestar stoðsendingar að meðaltali í leik með 7,1 stoðsendingu.
VF-Mynd/ [email protected] – Darboe og Matthías Imsland frá Iceland Express við verðlaunaafhendinguna í dag.