Burst fyrir austan
Grindvíkingar áttu ekki í teljandi vandræðum með Hött á Egilsstöðum í Iceland Express deild karla í gær. Lokatölur leiksins voru 70 – 127 þar sem Jeremiah Johnson gerði 36 stig fyrir Grindavík og stal 9 boltum.
Grindvíkingar fóru vel af stað og höfðu yfir að loknum 1. leikhluta 15 – 32 og í hálfleik var staðan orðin 31 – 57. Sigur Grindavíkur var aldrei í hættu og lauk leik 70 – 127 Grindavík í vil sem er nú í 4. sæti deildarinnar með 24 stig eða jafn mörg og KR sem er í 3. sæti.
Páll Axel kom Jerimiah næstur með 24 stig en þeir Björn Brynjólfsson og Þorleifur Ólafsson voru báðir með 13 stig. Hjá Hetti gerði Eugene Christhoper 24 stig.
„Í sjálfu sér varð aldrei neinn leikur úr þessu, við tókum leiknum gegn Hetti mjög alvarlega og komum vel stemmdir til leiks. Við byrjuðum af krafti og það gaf vel,“ sagði Páll Axel Vilbergsson í samtali við Víkurfréttir.
„Nú fer hausinn í bikarleikinn gegn Keflavík og þetta verður hörkuleikur. Við þurfum að finna út hvað í leikjum vetrarins hefur verið að gefa okkur vel og nýta þessa góðu hluti og gera þá jafnvel enn betur en fyrr. Við eigum það til að vera mjög góðir en getum líka verið ansi lélegir,“ sagði Páll Axel að lokum.
Hvort Páli og félögum tekst að taka saman alla góðu þættina í leik Grindavíkurliðsins kemur í ljós í Laugardalshöll þann 18. febrúar n.k. þegar Grindavík mætir Keflavík í Bikarúsrslitaleiknum.
VF - mynd/ Páll í leik gegn Hamri/Selfoss fyrr á tímabilinu.