Botnslagur í Grindavík og Keflvíkingar heimsækja Fylkismenn
Sjötta umferð Pepsi-deildar karla fer fram í kvöld en þá munu þrír leikir fara fram. Grindvíkingar leika heima gegn Þór en bæði lið eru við botn deildarinnar, Grindvíkingar í 10. sæti með 4 stig eftir fimm leiki og Þórsarar sæti neðar með 3 stig eftir fjóra leiki. Ljóst er að bæði lið þurfa nauðsynlega á sigri að halda ef þau ætla ekki að vera í botnbaráttu í ár.
Keflvíkingar fara í Árbæinn í kvöld og mæta Fylkismönnum en liðin eru í 5. og 6. sæti deildarinnar, Keflvíkingar með 8 stig og Fylkir 7 eftir fimm leiki hjá hvoru liði. Leikur Keflvíkinga hefst klukkan 19:15 en Grindvíkingar leika klukkan 20:00.