Beitusali sem býður upp á ódýrar boltaferðir
Pylsubeita vinsæl hjá þeim sem eru að reyna veiða ýsu. Sigurður Óli Þórleifsson rekur fyrirtækið Mustad og þjónustar línuflotann.
„Þetta byrjaði sem áhugamál en eftir að umsvifin jukust stofnaði ég Njóttu ferðir,“ segir Sigurður Óli Þórleifsson. Aðalstarf Sigga undanfarin hefur verið rekstur Mustad Autoline ehf. sem selur beitningarvélar en einnig selur fyrirtækið beitu. Siggi hefur alltaf verið forfallinn stuðningsmaður Manchester United og veit fátt skemmtilegra en að skella sér á leik á Old Trafford. Þetta áhugamál leiddi til þess að hann fór að aðstoða fólk við að fá miða á leiki og á endanum stofnaði hann fyrirtæki utan um reksturinn. Siggi býður einmitt sigurvegara í tippleik Víkurfrétta á úrslitaleik ensku bikarkeppninnar sem fer fram í maí.
Kannski var fyrstu frækornunum að Njóttu ferðum sáð strax á unga aldri þegar Siggi bjó um tíma í Grimsby í Englandi. „Ég bjó tvisvar sinnum í Grimsby, frá tveggja til sex ára aldurs og svo aftur frá átta ára til tólf ára aldurs. Þar á milli bjó ég í Breiðholtinu og flutti svo í Grafarvoginn þegar við vorum endanlega komin til Íslands. Svo ég var kannski meiri Englendingur í mér fyrstu æskuárin og kannski var þessi tenging við England og enska boltann hluti ástæðunnar að ég fór út í þetta. Mest þó bara einskær áhugi á enska boltanum, ég hef alltaf haft mjög gaman af því að fara út á leiki og hef átt ársmiða á Old Trafford frá 2013. Í gegnum þær ferðir kynntist ég mönnum í miðabransanum og ég var líka búinn að kynnast nokkrum Englendingum í gegnum störf mín sem knattspyrnudómari á alþjóðlegum vettvangi. Áður en ég vissi af var ég farinn að aðstoða fólk við miðakaup, svo fór þetta að vinda upp á sig og á endanum var ekkert annað í stöðunni en stofna fyrirtæki í kringum þetta sem fékk nafnið Njóttu ferðir. Ég stefni á að heimasíða verði komin í loftið í sumar, fyrir næsta tímabil, en síðan árið 2014 hef ég verið með síðu á Facebook sem heitir Manchester United miðar, hún er með rúmlega fjögur þúsund fylgjendur. Þótt síðan heiti þessu nafni hafa stuðningsmenn annarra liða haft samband og ég hef reddað miðum á leiki þeirra liða.“
Njóttu ferðir
Fyrstu árin var Siggi kannski að útvega 100 miða á ári en bara um daginn voru yfir 200 aðilar á hans vegum í Englandi, 140 á leik Liverpool og Manchester City og 80 á leik Manchester United og Everton.
„Ég er kominn í samstarf við mjög öfluga aðila í Englandi, fyrirtæki sem er með klærnar nánast út um allan heim. Við erum auðvitað langmest að útvega miða á leiki í ensku úrvalsdeildinni en það kemur fyrir að óskað er eftir miðum á leiki t.d. í Þýskalandi, Ítalíu og á Spáni. Um daginn höfðu Íslendingar samband sem voru á Kanaríeyjum, þeir vildu sjá leik Las Palmas og Barcelona og ég gat útvegað þeim miða. Ég hef ekki ennþá fengið beiðni um miða á leik í Suður-Ameríku, ég er eiginlega viss um að geta útvegað miða á leiki þar líka, það yrði nú upplifun held ég að fara á leik t.d. í argentísku eða brasilísku deildinni. Það eru ekki bara íþróttaviðburðir sem við reddum miðum á, ég fæ oft beiðnir um miða á tónleika og eitt sem væri vel hægt að skoða væri golfferðir, það er stór og mikill markaður. Nú er ég kominn með ferðaskrifstofuleyfi og sé oftast um allan pakkann, þ.e. bæði flug og gistingu.
Ódýrar ferðir
Ég leyfi mér að fullyrða að fáir geti boðið upp á eins hagstæðar ferðir og ég get, þetta er að mestu áhugamál hjá mér og þar sem fjárhagslegur ávinningur er ekki aðalkeppikeflið get ég boðið ferðir á mjög hagstæðu verði. Það færir mér gleði að geta aðstoðað fólk við að láta draum sinn, og hugsanlega barna sinna eða barnabarna, um að komast á leik í Englandi, rætast. Sjálfur leikurinn er nánast aukaatriði hjá mörgum, upplifunin í kringum leikinn er jafnvel skemmtilegri, t.d. að mæta á Bishops Blaize eða The Trafford. Þetta eru barir þar sem innfæddir Manchester-búar, gallharðir United-stuðningsmenn mæta og kyrja söngva yfir krús og hita sig upp fyrir leikinn.
Að komast aðeins í burtu yfir veturinn í mesta skammdeginu, dvelja í skemmtilegri borg og borða góðan mat, þetta er eitthvað sem sífellt fleiri Íslendingar eru farnir að nýta sér. Siggi segir að oftast sé gist í Manchester eða Liverpool þegar farið er á leiki í Norður-Englandi en hann segist hafa gaman af því að uppgötva nýja staði, t.d. Warrington sem er heimabær pílukastarans Luke Littler. „Warrington er 170 þúsund manna bær, mitt á milli Manchester og Liverpool. Þar er allt mun ódýrara en inni í borgunum, þarna er fullt af frábærum golfvöllum allt í kring. Þeir viðskiptavinir mínir sem hafa kosið að dvelja í Warrington eru mjög ánægðir,“ en hvað með sætin á fótboltavöllunum?
„Ég er alltaf með ákveðið grunnverð í ferðunum, það miðast við miða á ákveðnum stað á vellinum en ef fólk er með sérkröfur um val á sæti er hægt að borga meira og velja svæði,“ segir Siggi.
Tippmeistari Víkurfrétta á Wembley
Njóttu ferðir gefa hluta verðlaunanna í tippleik Víkurfrétta sem var endurvakinn síðasta haust. Verðlaunin eru flug, gisting og miði á sjálfan úrslitaleikinn í ensku bikarkeppninni, FA cup, á Wembley. Leikurinn fer fram laugardaginn 25. maí og munu Njóttu ferðir sjá um miðann og gistinguna, Icelandair býður upp á flugið. Þar sem Siggi er gallharður stuðningsmaður Manchester United er ekki loku fyrir það skotið að hann verði með í för þegar vinningshafinn og blaðamaður Víkurfrétta bregða undir sig betri fætinum.
„Fyrst United vann Liverpool í þessum svakalega skemmtilega leik í átta liða úrslitunum tel ég nú bara ansi líklegt að ég sláist með í för, þ.e.a.s. ef United vinnur Coventry í undanúrslitunum. Ég hef aldrei séð mína menn í úrslitaleik á Wembley og líklega er bara kominn tími til.
Ég var ánægður með að þið hjá Víkurfréttum skylduð endurvekja tippleikinn og mér var ljúft og skylt að geta verið stuðningsaðili í honum. Ég hef fylgst með, veit að tveir Grindvíkingar eru inni í undanúrslitunum eins og sakir standa og Grétar Hjartar er þar pottþétt líka. Ég hélt með kollega mínum úr dómgæslunni, Magga á Réttinum, um daginn. Ég var strax farinn að spá í hverjum hann myndi mæta næst því það átti ekki að vera hægt að tapa fyrir aðila sem veit varla hvað getraunir snúast um, ég trúi varla ennþá að Maggi hafi tapað fyrir Antoni! Hver svo sem vinnur tippleikinn veit ég að viðkomandi á eftir að skemmta sér vel í þessari ferð og vonandi verð ég með í för.“
Knattspyrnudómgæsla
Siggi æfði fótbolta þegar hann var í Englandi og hélt því áfram með Fjölni þegar hann var alkominn heim á skerið. Fljótlega varð honum ljóst að hann myndi ekki snúa aftur til Englands vegna atvinnumennsku í fótbolta en hann göslaðist með upp í meistaraflokk en var þá líka byrjaður að þjálfa. Hann á stóran þátt í að kvennastarf í Fjölni varð til og er það blómlegt í dag. Eldri bróðir hans var byrjaður að dæma og það heillaði Sigga, honum óx ásmegin og dæmdi í rúm tuttugu ár hér heima og um árabil í Evrópu sem aðstoðardómari (línuvörður).
„Það var nýbúið að stofna Fjölni þegar ég flutti heim og ég fór „all-in“ í starfið má segja. Ég æfði og spilaði upp í meistaraflokk, var fljótlega farinn að þjálfa og á stóran þátt í að byggja kvennastarfið upp hjá félaginu. Ég var búinn að vera dæma hjá Fjölni og fór svo á dómaranámskeið þegar ég var sautján ára. Ég hellti mér af fullum krafti út í dómgæsluna þegar ég hætti sjálfur að æfa 22 eða 23 ára gamall og dæmdi til ársins 2018, þá orðinn 43 ára gamall og fannst fínn tímapunktur að hleypa yngri dómurum að. Ég tók flautuna síðan aðeins fram á COVID-tímanum. Það er margt eftirminnilegt frá ferlinum, ég flaggaði t.d. bæði á Anfield Road og á Goodison og hjá mörgum af stærstu liðum Evrópu, enska landsliðinu o.fl. Ætli ég verði ekki að viðurkenna að eftirminnilegasti leikurinn hér heima hafi verið úrslitaleikurinn á milli FH og Stjörnunnar í Kaplakrika 2014,“ segir Siggi.
Mustad áfram kjölfestan
Þórleifur pabbi Sigga hafði verið að selja fisk í Englandi og hann hélt sig við sjávarútveginn eftir að fjölskyldan flutti heim, hann stofnaði m.a. Fiskifréttir, stofnaði íslensku sjávarútvegssýninguna og svo var hann kominn út í beitusölu og fljótlega voru feðgarnir komnir saman í rekstur.
„Pabbi var byrjaður að selja beitu, fyrirtækið hét Tobis og árið 2012 kom ég inn í reksturinn með honum. Fljótlega bauðst okkur að gerast umboðsaðili fyrir Mustad Autoline beitningarvélar. Við sinnum líka Grænlandi, það er talsverð línuútgerð þar, alltaf gaman að koma þangað. Ég myndi segja að Mustad sé eins og Rollsinn í beitningarvélunum, fyrirtækið er með starfstöðvar víða úti í heimi og eftir að ég tók alfarið við rekstrinum eftir að pabbi fór á eftirlaun hefur fyrirtækið heitið Mustad Autoline ehf. og við opnuðum í Grindavík. Sem betur fer gátum við komið okkur fyrir á Eyrartröðinni í Hafnarfirði eftir hamfarinar 10. nóvember. Við bjóðum í raun upp á allt sem viðkemur línuveiðum og erum líka byrjuð að selja net. Þá erum við með vinnufatnað og ýmislegt fleira. Við erum með aðila sem sinna viðhaldi á beitningarvélunum og við seljum beitu áfram, Mustad eru mjög framarlega á sviði beitu og eru komnir með pylsubeitu sem ýsan hefur einkar góða lyst á. Þeir sem þurfa að forðast þorskinn vegna kvótastöðu og eru að eltast við ýsu, fyrir þá er einkar hentugt að beita pylsunni. Þegar ég byrjaði í beitusölunni þá var þetta mest síld, smokkur og sári en það hefur verið nokkur þróun í beitunni á undanförnum árum. Ég flyt smokkinn mest inn frá Argentínu, síldina tek ég frá Íslandi en mesta beituna flyt ég inn frá Mustad í Noregi. Við erum þeir einu sem bjóðum upp á svona pylsubeitu.
Ef þú spyrð mig hvar ég sjái Mustad fyrir mér eftir þrjú ár þá verður náttúran að ráða för, vonandi byggist Grindavík fljótt upp því þar hefur verið risalínuútgerð í gegnum árin og vonandi verð ég að þjónusta fleiri fyrirtæki vítt og breitt um landið. Ég á ekki von á öðru en Mustad verði áfram kjölfestan hjá mér eftir þrjú ár en hver veit hvar Njóttu ferðir verða þá,“ sagði Siggi að lokum.