Ástrós skráir sig í sögubækurnar
Norðurlandameistari í fimmta sinn
Keflvíkingurinn Ástrós Brynjarsdóttir varð Norðurlandameistari í taekwondo í fimmta sinn um helgina. Hún keppti í tveimur erfiðum flokkum og uppskar gull í tækni, en það var mjög stór sigur fyrir hana. Hún fékk einnig bronsverðlaun í bardaga og var svo valin bardagakona mótsins.
Ágætis hópur Íslendinga fór á mótið en Ástrós var eini Keflvíkingurinn sem fór að þessu sinni. Ástæðan var sú að það var alþjóða taekwondo mót í Reykjavík á sama tíma þar sem stór hluti Keflvíkinga keppti.
Ástrós er að skrá sig í sögubækurnar en hún er þriðji Íslendingurinn frá upphafi sem nær fimm Norðurlandatitlum og sú eina sem nær því fyrir 18 ára aldur.