Æsispennandi í Grindavík en Snæfell vann góðan sigur
Snæfell knúði fram mikinn baráttusigur gegn Grindavík í þriðja undanúrslitaleik liðanna í Grindavík í dag. Lokatölur urðu 97-104 eftir tvíframlengdan leik. „Mínir menn voru ekki nógu vel stemmdir. Snæfellingar vildu þennan sigur meira,“ sagði Friðrik Ragnarsson, þjálfari Grindavíkur eftir leikinn.
Snæfellingar voru yfir allan tímann og höfðu 13 stiga forskot í leikhlé, 30-43 og lítið gekk hjá heimamönnum sem voru ekki í sama gír og í síðustu tveimur leikjum.
Þegar fjórði leikhluti hófst var fátt sem benti til þess að heimamenn yrðu í baráttunni um sigur í leiknum en með sterkri pressuvörn tókst þeim að komast inn í leikinn og allt ætlaði vitlaust að verða í Grindavík hjá Siggu og stuðningsmönnum UMFG.
Ótrúleg spenna var á lokamínútunum og lokasekúndunum, miklar sviptingar á báða bóga en Snæfell var fjórum stigum yfir þegar nokkrar sekúdur voru eftir en þá skoraði Þorleifur þrist og fékk víti að auka og jafnaði 76-76.
Grindvíkingar virtust ætla að taka leikinn í sínar hendur í framlengingunni en með harðfylgi tókst Snæfelli að halda haus og voru stutt frá því að stela sigrinum í lokin en Nick Bradford tróð og jafnaði 83-83.
Í annarri framlengingu voru Snæfellingar miklu betri og vörn UMFG var ekki sú sama og fyrr í leiknum. Gestirnir skoruðu 21 stig á móti aðeins 14 heimamanna og þeir innbirtu sanngjarnan sigur í frábærum spennuleik 97-104.
„Það er ekki hægt að leika svona gegn Snæfelli og það er alveg ljóst að okkar bíður gríðarlega erfitt verkefni í Hólminum á þriðjudaginn. Við verðum að mæta með betra hugarfar til leiks ef við ætlum okkur sigur þar,“ sagði Friðrik þjálfari UMFG.
Stigahæstir hjá heimamönnum voru Helgi Jónas Guðfinsson með 22 stig, Nick Bradford var með 21 og Þorleifur Ólafsson var með 15 stig. Sigurður Þorvalds var stigahæstur Snæfellinga með 23 stig, Hlynur Bærings var með 21 og Jón Ólafur Jónsson var með tuttugu stig.
Sigga stuðningsmaður Grindavíkur nr. 1 var í stuði en ósátt með lokin.
Helgi Jónas á vítalínunni. Takið eftir skotklukkunni og stöðunni.
Þorleifur jafnaði metin með þriggja stiga körfu og vítaskoti í blálokin.
VF-myndir/pket.