,Mikilvægt að þykja erfiðir heim að sækja
Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur, í viðtali fyrir leik dagsins
Keflvíkingar spila í kvöld fyrsta leik sinn í Pepsí deildinni þetta sumarið þegar Víkingar sækja liðið heim á Nettóvöllinn.
Víkurfréttir settu sig í samband við Kristján Guðmundsson, þjálfara Keflvíkinga sem er spenntur fyrir sumrinu og segir liðið tilbúið að taka skref fram á við frá því á síðasta tímabili.
Nú er fyrsti leikur tímabilsins loks að verða að veruleika, hvernig er stemmningin í ykkar herbúðum fyrir komandi tímabili?
Stemmningin er góð og hægt og rólega erum við að gera okkur grein fyrir því að mótið er að byrja og tilhlökkunin er farin að gera vart við sig.
Eru allir leikmenn klárir í slaginn?
Þeir leikmenn sem hafa verið frá undanfarnar vikur ná ekki fyrsta leik á sunnudaginn gegn Víkingum. Annars erum við í góðu standi.
Hverjar verða áherslur í leik Keflavíkur í sumar? Verða almennt taktískar breytingar á spilamennsku liðsins frá því á síðasta tímabili?
Leikfræðilega erum við aðeins reyna að færa liðið framar á völlinn í ákveðnum tilfellum í leiknum en annars erum við að vinna með sömu leikfræði og áður.
Nú er Keflavíkurliðinu spáð 8. sæti af 12 liðum af fjölmiðlum og álitsgjöfum þeirra, eitthvað sem þið eruð eflaust farnir að venjast þ.e. að vera ekki hátt skrifaðir fyrir mót. Hvernig blasir sú spá við þér og liðinu?
Spár fjölmiðla koma lítið við okkur enda er þetta álit þeirra sem horfa á okkur utanfrá og hafa engin áhrif innan okkar félags. Við erum sjálfir meðvitaðir um hvað við getum í fótbolta og vinnum hörðum höndum að því að ná því fram í sumar.
Hafið þið sett ykkur einhver markmið fyrir sumarið sem má segja frá opinberlega?
Þau markmið voru sett á fundi liðsins á Verkalýðsdaginn, 1. maí, rétt áður en við fórum í kröfugöngu, en opinberlega höfum við sagt að við viljum taka áfram fyrstu skrefin í að koma okkur upp töfluna og byggja á góðum endaspretti í deildinni í fyrra.
6 sigurleikir á öllu síðasta tímabili og þar af 3 á heimavelli. Hversu mikilvægt er að gera Nettó völlinn að erfiðu vígi að sækja heim í sumar?
Það er mikilvægt að þykja erfiðir heim að sækja og hluti af því er að liðinu okkar líði vel þegar það spilar á heimavelli. Allir þurfa að leggjast á eitt til að svo verði, leikmenn, stjórn, áhorfendur, vallarstarfsmenn o.s.frv. Svona hlutir eru ekki eingöngu á herðum leikmanna og gerast ekki að sjálfu sér.
Nettóvöllurinn kemur oftar en ekki best allra valla undan vetri.
Hvernig eru nýju andlitin í liðinu að falla inn í hópinn?
Þeir leikmenn sem við höfum fengið hafa margir komið frekar seint í vetur inn í leikmannahópinn en eru að aðlagast vel og eiga eftir að sýna okkur enn meira inn í sumrinu.
Augljóslega mikill hvalreki að fá reynsluboltana og heimamennina Hólmar Örn og Guðjón Árna aftur til liðsins, telurðu að þeirra frammistaða í sumar komi til með að skipta liðið miklu máli hvað varðar úrslit leikja?
Koma þeirra Hólmars og Guðjóns styrkja okkur mikið, ekki eingöngu inni á vellinum heldur einnig í öllu sem kemur að vinnu og þjálfun liðsins. Þeir eru að sjálfsögðu mjög góðir knattspyrnumenn og sýna okkur það í leikjunum en þeir eru einnig í því hlutverki á æfingum að leiðbeina ungum leikmönnum sem eru farnir að banka á dyrnar í meistaraflokknum en það styttist í kynslóðaskipti í liðinu sem mun væntanlega fara af stað í sumar.
Guðjón Árni handsalar samninginn við Þorstein Magnússon, formann knattspyrnudeildarinnar.
Að lokum vildi Kristján koma eftirfarandi skilaboðum áleiðis til stuðningsmanna liðsins:
Verið velkomnir á Nettóvöllinn og styðjið okkur í blíðu og stríðu. Við stefnum á að skemmta ykkur í sumar !
Leikur Keflavíkur og Víkings hefst kl. 19:15 á Nettóvellinum í Reykjanesbæ.