„Verður að vera gaman þegar maður leggur það á sig að vinna að stóru verkefni í sjálfboðavinnu í tíu ár“
– segir Steinþór Jónsson, hótelstjóri á Hótel Keflavík og aðaldriffjöður Ljósanætur
Steinþór Jónsson, hótelstjóri á Hótel Keflavík var aðaldriffjöðurin í því að koma Ljósanótt á koppinn ásamt miklu fleirum sem gerðu viðburðinn að því sem hann er í dag. Upphaflega hugmyndin, um að lýsa upp Bergið, laust niður í höfuð Steinþórs eins og elding, þegar hann sigldi í bát framhjá þessum háu klettaveggjum eitt kvöldið. Steinþór sem hefur yfirleitt marga bolta á lofti, gaf sér tíma í létt spjall um upphaf Ljósanætur.
Það verður nú að fylgja með að Steinþór bauð blaðakonu Víkurfrétta að koma í djúpsteiktar gellur á KEF Restaurant eitt hádegið í síðustu viku, sem hún var mjög tortryggin að smakka en ákvað að slá til og viti menn, gellurnar voru mjög bragðgóðar.
Hvers vegna Ljósanótt Steinþór, hvað varstu að spá?
Hann segist vera framkvæmdamaður sem fær oft nýjar hugmyndir. „Ef mér dettur eitthvað frumlegt í hug þá á ég það til að skoða það vel og jafnvel framkvæma. Það má segja að hugmyndin að Ljósanótt hafi þróast út frá hugmyndinni um lýsingu Bergsins enda kemur nafnið þaðan. Fyrsta hugsun um lýsingu Bergsins kom eins og þruma úr heiðskíru lofti til mín á siglingu frá Grófinni með vinafólki úr saumaklúbb Hildar konu minnar. Ég horfði á kaldan en fallegan klettavegginn og sagði við vin minn „Þennan klettavegg þarf að lýsa upp.“ Flestar hugmyndir skrái ég niður og fylgi þeim eftir. Í þessu tilviki hafði ég vit á að tala ekki um hugmyndina fyrr en fundist hafði tæknileg útfærsla í samstarfi við ljósahönnuð iGuzzini frá Ítalíu. Verkefnið var mjög krefjandi og tók tæp tvö ár enda var ekki um sléttan manngerðan vegg að ræða.“
Gerðist allt mjög hratt
„Þegar fyrsta tölvugerða myndin birtist í Víkurfréttum tveimur árum seinna þá fóru hlutirnir að gerast hratt en blaðið hefur meðal annarra stutt vel við verkefnið alla tíð. Það sem stendur upp úr í minningunni var allt þetta fólk sem vildi hjálpa og allir gerðu þetta í sjálfboðavinnu að sjálfsögðu, því engin hátíð var á fjárlögum bæjarins frekar en lamparnir á Berginu, sem ég keypti ásamt nokkrum styrktaraðilum. Móttökur almennings fyrstu Ljósanóttina voru hreint stórkostlegar og það kallaði sjálfkrafa á að gera þetta að árlegum viðburði. Valgerður Guðmundsdóttir, menningarfulltrúi Reykjanesbæjar, var til dæmis þarna á sínum fyrsta starfsdegi en hefur svo meðal annarra átt veg og vanda að því hversu vel Ljósanótt hefur þróast á þessum tuttugu árum.“
Er það satt að þú fórst á hnén og baðst Guð um gott veður þessa helgi?
„Einlæg hugsun, von eða bæn til Guðs um að bæjarbúar fengju sól og gott veður rættist já. Eigum við þó ekki að segja að teikninginn af mér á hnjánum hafi verið myndræn en það var mjög bíræfið að biðja Guð um gott veður þarna á þessum tímapunkti. Staðreyndin er sú að ég var í viðtali á Stöð 2 í beinni útsendingu daginn fyrir fyrstu Ljósanóttina og strax eftir viðtalið voru veðurfréttir í beinni útsendingu. Þar lýsti veðurfræðingurinn hræðilegum stormi með mikilli rigningu. Ég var í næsta herbergi og var mjög brugðið því að með þessari veðurspá var veðurfræðingurinn að tryggja fámenni á Ljósanótt. Ég stökk því upp úr sætinu mínu og veifaði höndunum til að ná athygli veðurfræðingsins þarna í beinni útsendingu. Hann leit til mín, hafði auðvitað heyrt viðtalið og sagði kokhraustur, „Það verður stormur og rigning alls staðar á suðvesturhorni landsins nema á Ljósanótt,“ og það stóðst.“
Vaknar oft upp með góðar hugmyndir
Steinþór stundar enga líkamsrækt en segist vera fullur af krafti og jákvæðni. Hann væri sjálfsagt greindur með ofvirkni ef hann hefði fæðst í dag. Hann hefur reynt að nýta þennan kraft til góðs eða eins og hann segir sjálfur frá;
„Ég er yfirleitt með marga bolta á lofti í vinnunni og finnst ég ekki þurfa beina líkamsrækt því ég er mikið á ferðinni. En auðvitað þarf ég að bæta því á listann og ætla bara láta verða af því þessa Ljósanótt. Ég er jákvæður og bjartsýnn að eðlisfari og það gefur manni ákveðinn kraft hvernig hugarfarið er. Það er áríðandi að fólk trúi á það sem það er að gera því hugurinn er mjög öflugur en mér finnst alltaf gaman í vinnunni en sumir segja mig dæmigerðan frumkvöðul. Ljósanóttin var eitt af mínum frumkvöðlaverkefnum og eftir tíu ára starf var mér gefin ljósmynd frá Reykjanesbæ sem þakklætisvottur fyrir störf mín fyrir Ljósanótt. Myndin er af mér skælbrosandi fyrir framan leikskóla- og grunnskólabörnin við Myllubakka þegar sólin braust fram úr köldum og gráum skýjum aðeins tvær mínútur fyrir klukkan tíu en á henni stendur einfaldlega „Og þá kom sólin“. Mér þótti vænt um að fá þessa viðurkenningu.“
Hvaða þýðingu hefur Ljósanótt fyrir þig? Fyrir bæjarfélagið?
„Ég er mjög stoltur af þeirri tengingu sem við gerðum með öllum börnum bæjarins við Myllubakka og verð að viðurkenna að ég sakna blöðrusleppingar þó ástæðurnar séu réttmætar. Í dag að heyra barnabörnin mín æfa sig heima eftir leikskólann „Velkomin á Ljósanótt, þetta er hátíðin okkar, njótum lífsins í kvöld“ er samt besta viðurkenningin og að þetta hafi allt verið þess virði. Þá er viðtalið sem Páll Ketilsson tók við föður minn, Jón William heitinn, á Ljósanótt 2014 um hátíðina er mér mjög hugleikið og falleg minning. Ljósanótt er í huga mínum alltaf jákvæð og minnir mig á þá samstöðu og jákvæðni sem hægt er að ná fram hjá bæjarbúum. Það er eitt að eiga hugmynd að lýsingu og vinna svo með góðu fólki og búa til Ljósanótt, hátíðin var og er samtaka átak mjög margra. Það er svo allt annað og meira að fá allan þennan fjölda til að hafa trú á að eitthvað stórt sé hægt og mæta til að taka þátt. Það tókst strax á fyrsta degi. Fyrir bæjarfélagið er mikilvægt að eiga sína eigin hátíð og/eða áramót því setningin fyrir og eftir Ljósanótt þykir eðlileg í daglegu tali í dag, enda einstakt að bæjarhátíð nái yfir fjóra til fimm daga. Þarna er tækifæri til að klára framkvæmdir og taka til sem skilar sér svo yfir allt árið.“
Eitthvað neikvætt?
„Nei ekkert neikvætt en það eru sumir sem vilja helst ekki sjá góða hluti gerast þegar það tengist öðrum en þeim sjálfum. Eru í einhverri ímyndaðri pólitík í stað þess að njóta þess að eitthvað gott sé gert fyrir bæjarfélagið og það sjálft. Sumir hafa jafnvel til dagsins í dag verið með nýjar og broslegar söguskýringar um hvernig Ljósanóttin varð til.“ Ertu með grillveislu á Ljósanótt heima hjá þér?
„Fyrstu tíu árin var ég það upptekinn sem formaður Ljósanætur að grillveisla heima kom ekki til greina og fjölskyldan var oftar en ekki án mín að njóta alls þess sem Ljósanótt bauð upp á. En já eftir þessi tíu ár var ég með grillveislur og eitt árið með yfir tvö hundruð manns í garðinum heima á Bragavöllum. Það var bara gaman. Þetta árið ætla ég að fylgjast með steikarveislu á grillinu á KEF Restaurant á Hótel Keflavík. Þetta er fyrsta árið sem við rekum veitingastaðinn sjálf og hefur teymið mitt gríðarlegan metnað til að láta bæjarbúa og gesti njóta þess besta hjá okkur á tuttugu ára afmæli Ljósanætur.“
Tekurðu þátt í árgangagöngu?
„Já, það hef ég gert flest árin enda svakalega skemmtileg uppákoma sem Maggi bróðir átti hugmyndina að. Hann bókstaflega krafðist þess af mér að árgangar gætu hist á Ljósanótt. Útfærslan á hugmyndinni með að nota húsnúmerin á Hafnargötunni gekk svo frábærlega upp og eitt flottasta atriði Ljósanætur varð að veruleika. En þetta var svaka mikil vinna sérstaklega fyrstu árin og get ég í því samhengi upplýst ákveðið leyndarmál sem fáir vita um en eftir árgangagönguna og þegar allir bæjarbúar, gestir og fjölskyldan voru komin í miðbæinn fór ég sjálfur heim og lét renna í heitt bað. Var líklegast sá allra sáttasti á svæðinu þar sem ég lá þarna einn í heitu baði með mínar hugsanir og brosandi með sjálfum mér hve allt hefði gengið vel.“
Væri gaman að fá aftur stjörnusporin
Stjörnuspor Reykjanesbæjar er hugmynd frá árinu 2003 sem Hilmar Bragi Bárðarson, blaðamaður Víkurfrétta, fékk að láni frá Los Angeles. Hún var löguð að aðstæðum í Reykjanesbæ í samvinnu við Steinþór Jónsson þáverandi formann undirbúningsnefndar Ljósanætur. Hugmyndin var sú að allir sem skarað hafa fram úr og markað spor í bænum með einum eða öðrum hætti komi til greina og útfærslan á sporunum geti orðið mismunandi eftir tilefni. Megin hugmyndin er þó sú að málmskildir tileinkaðir viðkomandi aðilum eru settir í gangstéttina víða við aðalgötu bæjarins, Hafnargötuna.
„Sú hugmynd sem Hilmar Bragi kom með og við útfærðum voru stjörnu- og sögusporin finnst mér alltaf mjög skemmtileg og vildi að yrði tekinn upp aftur. Sjálfur lagði ég mikla áherslu á að hver Ljósanótt yrði sjálfstæð og hefði sinn ákveðna sjarma með nýjum uppákomum og framkvæmdum og það tókst vel fyrstu tíu árin. Kannski erfitt að gera alltaf betur. Það tókst til dæmis með frumlegum flugeldasýningum Björgunarsveitarinnar og einnig er flugeldasýningin þar sem tæknimenn Clint Eastwood aðstoðuðu við stórar sprengingar á Berginu og á flekum í miðri Keflavíkinni minnisstæð sem og þegar Íslendingur sigldi inn í Keflavíkina í fyrsta sinn á Ljósanótt. Þá er „Með blik í auga“ ein og sér einstök og frábær skemmtun en áður fór fram Ljósalagakeppni í Stapa sem heppnaðist líka vel og þyrfti að halda á svona fimm ára fresti. Ljósanótt var eðlilega auka verkefni hjá mér sem formaður í tíu ár en daglega vinna mín sem hótelstjóri hvarf ekki á meðan. Þá skipti öllu máli að hafa skilningsríka eiginkonu sér við hlið sem sá um fjölskylduna og leyfði mér að vinna allt það sem þurfti. Þetta vita dætur okkar Hildar best og hafa oft á orði hve stóran part mamma þeirra eigi í að Ljósanótt sé komin til að vera. Reyndar á það við um allt sem við hjónin höfum komið til leiðar því samvinna og dugnaður er það sem skilar öllu best,“ segir Steinþór.
Að Ljósanótt virkji það góða í fólki
Á þessu ári fer bæjarhátíðin fram í tuttugasta sinn og verður ekkert til sparað í hugmyndum eða fjölbreytilega allra bæjarbúa af öllu þjóðerni.
„Það er von mín að Ljósanótt haldi áfram að virkja samvinnu og jákvæðni og geri alla bæjarbúa stolta af fallega bænum okkar. Mér finnst skemmtilegt að erfitt sé að skilgreina Ljósanótt sem fjölskyldu-, menningar- eða framkvæmdahátíð því hún er allt þetta. Það er kannski það jákvæðasta. Ég vil nota tækifærið og þakka öllum samstarfsmönnum, sem allt of og langt væri að telja upp yfir öll árin, fyrir frábæra vinnu og dugnað. Án ykkar væri engin Ljósanótt. Ég óska öllum bæjarbúum og gestum gleðilegrar hátíðar og nýjum stjórnendum velgengni og áræðni til að gera enn betur um alla framtíð,“ segir Steinþór kampakátur að lokum.