Vogar: Viðsnúningur á rekstri
Rekstrarniðurstaða Sveitarfélagsins Voga var jákvæð um tæpar 18 milljónir, fyrir fjármagnsliði, á síðasta ári. Þetta kom fram þegar ársreikningur sveitarfélagsins var tekinn til fyrri umræðu á bæjarstjórnarfundi í síðustu viku. Þetta er talsverður viðsnúningur frá árinu 2006 þegar tæplega 40 milljóna halli var á rekstri sveitarfélagsins.
Alls voru tekjur síðasta árs 560.904.319 kr. en gjöldin 542.937.954 kr. Fjármagnsliðir voru 1.134.363.618 kr. og heildarrekstrarniðurstaða því jákvæð um 1.152.329.983 kr.
Meðal helstu niðurstaða samstöðureiknings má nefna eftirfarandi:
Eignir 2.163.064.721 kr.
Skuldir og skuldbindingar án fasteignaleigusamninga 768.243.876 kr.
Skuldbindingar vegna fasteignaleigusamninga 1.139.779.000 kr.
Veltufé frá rekstri 129.331.166 kr.
Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri, fór á fundinum yfir helstu niðurstöður og lagði áherslu á að trygg fjármálastjórn og gott samstarf við forstöðumenn stofnanna sé grundvöllur þess að hægt sé að ná tökum á rekstri sveitarfélagsins.
Í bókun frá forseta bæjarstjórnar segir að um algjöran viðsnúning sé að ræða í rekstrinum og ábyrg fjármálastjórn sé að skila góðum árangri. Núverandi meirihluti E-lista komst til valda í bæjarstjórnarkosningum í maí 2006.
Í útreikningi meirihlutans kemur fram að veltufé frá rekstri sé um 20,3% af rekstrartekjum sveitarfélagsins, en í fyrra var það neikvætt um 6%. Það þýði að 3,2 ár tæki að greiða upp allar skuldir sveitarfélagsins ef veltuféð yrði nýtt eingöngu til þess. Stefnan er hins vegar tekin á enn meiri fjárfestingu í uppbyggingu sveitarfélagsins.
Ársreikningi var vísað til seinni umræðu.
Bókun meirihlutans fylgir hér óstytt:
Nú liggur ársreikningur Sv. Voga fyrir árið 2007. Óhætt er að segja að hér sé um algjöran viðsnúning að ræða í rekstri sveitarfélagsins á aðeins rúmu ári undir stjórn E- listans. Við upphaf nýs kjörtímabils var óháður aðili fengin til að gera úttekt á fjármálum sveitarfélagsins og var niðurstaða hans að staðan væri vægast sagt erfið. Sveitarfélagið hafði verið rekið með miklum halla sem fjármagnaður var með sölu eigna og lántöku. Veltufé frá rekstri var iðulega neikvætt, sem þýðir að sveitarfélagið gat ekki staðið undir afborgunum lána.
Nýr meirihluti lagði strax í mikla vinnu við að endurskoða ferla við áætlanagerð og fékk nýja ráðgjafa til starfa. Ýmsar breytingar hafa verið gerðar til að skýra og bæta fjármálastjórn sveitarfélagsins og upplýsingagjöf til bæjarfulltrúa. Fyrirliggjandi ársreikningur ber það með sér að þessar breytingar eru að skila árangri.
Rekstrarniðurstaða samantekins árshlutareiknings, án fjármagnsliða, sýnir hagnað upp á tæplega 18. millj.kr. samanborið við tæplega 40 milljóna króna halla árið 2006. Niðurstaða án fjármagnsliða er að mestu án áhrifa af sölu á hlutum í Hitaveitu Suðurnesja og því ljóst að ábyrg fjármálastjórn er að skila góðum árangri.
Enginn vafi er á því að sala á hlutum í Hitaveitu Suðurnesja leggur góðan grunn að áframhaldandi traustum rekstri. Framfarasjóður sem stofnaður hefur verið skilar miklum vaxtatekjum ár hvert sem nýttar verða til ýmissa framfaraverkefna fyrir íbúa sveitarfélagsins.
Veltufé frá rekstri nemur rúmlega 129 milljónum króna, eða 20,3% af rekstrartekjum. Til samanburðar má geta þess að veltufé til rekstrar (neikvætt) var í kringum 6% árið 2006. Þetta er því viðsnúningur upp á rúm 26%. Ef við skoðum langtímaskuldir í hlutfalli við veltufé frá rekstri, þá tæki 3,2 ár að greiða niður skuldir sveitarfélagsins ef sveitarfélagið myndi nýta veltuféð eingöngu til niðurgreiðslu skulda og biði með allar fjárfestingar. Það er hinsvegar ekki stefnan, heldur verður fjárfest í uppbyggingu sveitarfélagsins eins og metnaðarfull 3 ára áætlun E- listans ber með sér.
Mikilvægt er að byggja á þessum grunni og halda áfram því góða starfi sem innt hefur verið af hendi við fjármálastjórn sveitarfélagsins. Þar spila forstöðumenn stofnanna lykilhlutverk sem fyrr og ber að þakka þeim sérstaklega fyrir vel unnin störf á liðnu ári.
Ábyrg fjármálastjórn er grundvöllur þess að hægt sé að halda áfram uppbyggingu fjölskylduvæns samfélags með þjónustu í fremstu röð. Sveitarfélagið Vogar hefur alla burði til að vera í fremstu röð sveitarfélaga á Íslandi. Þau tæpu tvö ár sem E- listinn hefur verið við stjórn hefur verið unninn traustur grunnur til framtíðar. Ofan á þann grunn verður byggt undir styrkri stjórn E- listans.