Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

„Vissu á undan foreldrum mínum að ég væri ófrísk“
Miðvikudagur 22. nóvember 2017 kl. 12:00

„Vissu á undan foreldrum mínum að ég væri ófrísk“

- Sækja um dagvistun fyrir börnin sín á tólftu viku meðgöngunnar

„Þegar kom í ljós að langt væri í land með dagvistun þá ákvað ég að athuga hvort bærinn myndi borga foreldrum sem þurfa að vera heima þar sem ég hef heyrt að önnur bæjarfélög geri það. Svörin sem ég fékk voru þau að Grindavíkurbær gerir það ekki og var mér bent á að leita til félagsmála ef ég væri í vandræðum. Við þurfum ekki að leita til þeirra en róðurinn er samt sem áður þyngri þegar annað aðilinn leggur núll til málanna um hver mánaðarmót og það mun ekki ganga endalaust.“
Foreldrar í Grindavík eru ósáttir með hvernig daggæslumálum þar í bæ er háttað. Í Krílakoti starfa tvær dagmömmur en starfsemi Krílakots mun hætta í vor og þá verða aðeins tvær dagmömmur starfandi í Grindavík. Foreldrar hafa þurft að sækja um pláss hjá dagmömmu þegar þeir eru aðeins komnir nokkrar vikur á leið og fá dagmömmurnar jafnvel að vita að von sé á barni langt á undan ættingjum og nánustu vinum. Foreldrar ungra barna verða af miklu tekjutapi og missa jafnvel úr námi þegar börn fá ekki pláss hjá dagmömmu við sex mánaða aldur og komast jafnvel sum börn ekki inn á leikskóla fyrr en þau eru orðin tuttugu og eins mánaða gömul eða við tveggja ára aldurinn.
Víkurfréttir höfðu samband við foreldra í Grindavík sem lýstu yfir áhyggjum sínum af stöðunni.

Dagmæður vissu á undan foreldrum mínum að ég væri ófrísk
„Ég sótti um á Krílakoti þegar ég var gengin tæpa þrjá mánuði á leið og vissu þær að ég væri ófrísk á undan foreldrum mínum. Það dugði því miður ekki til og ég átti að byrja að vinna í janúar en get ekki byrjað að vinna fyrr en í ágúst og krossa putta að barnið mitt komist þá inn á leikskóla þá tuttugu og eins árs mánaða gamalt. Ég er svo heppin að vinnuveitandinn minn skilur þessa stöðu en það eru ekki allir jafn heppnir og ég að vinnuveitandi geti haldið stöðu eyrnamerktri í fleiri mánuði og alveg upp í tvö ár. Það er skelfilegt að ekkert sé gert til að brúa bilið frá 9-21 mánaða aldurinn sem er í mínu tilfelli, það þýða tólf mánuðir sem ég hef engar tekjur. Held að Grindavík ætti að sjá sóma sinn í heimgreiðslum til foreldra barna í þessari stöðu. Ég held að viðbygging við Krók geti bjargað miklu að minnsta kosti ef halda á áfram þeirri stefnu að börn komist á leikskóla við átján mánaða aldurinn.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þessi staða er óboðleg
„Barnið mitt var mjög framarlega á biðlista hjá Krílakoti og við reiknuðum fastlega með því að það kæmist í dagvistun hjá þeim næsta haust. Fyrir tveim vikum fengum við síðan að vita að Krílakot myndi hætta starfsemi sinni vegna rakaskemmda í húsnæðinu. Þá hafði ég strax samband við dagmóður sem starfar hér í Grindavík ásamt annari dagmóður en þær verða einu dagmæðurnar hér í Grindavík þegar Krílakot lokar. Þegar ég hafði samband við þær þá fékk ég þær upplýsingar að ef öll börnin sem eru hjá þeim núna komast inn á leikskóla næsta haust, þá eru þær nú þegar búnar að fylla í öll pláss upp á nýtt og barnið mitt er númer fjögur á listanum, sem þýðir að líkurnar á því að hún komist inn í haust eru mjög litlar. Ég er í háskólanámi og verð að fara aftur í skólann næsta haust þar sem það er ekki í boði að fara lengur en í tvær annir í barneignarleyfi. Maðurinn minn er eina fyrirvinnan á heimilinu svo að hann getur ekki verið heima með barninu okkar, þetta er því mjög erfið staða fyrir okkur og óboðleg að öllu leyti. Við vorum búin að hafa samband við Krílakot þegar ég var komin þrjá mánuði á leið til þess að hafa vaðið fyrir neðan okkur og tryggja pláss fyrir barnið okkar en allt kom fyrir ekkert og staðan er því þessi í dag.“


Annað foreldrið launalaust í sex mánuði
„Ástandið er mjög hvimleitt fyrir foreldra í bæjarfélaginu, sérstaklega í ljósi óvissunnar um hvenær eða hvort börnin okkar komist í daggæslu. Atvinnurekendur eru misliðlegir þó að flestir séu það eflaust í ljósi aðstæðna en að missa tekjur annars foreldris úr heimilisbókhaldinu til lengri tíma er ógerlegt fyrir mikið af fjölskyldum. Barnið mitt er fætt í byrjun sumars og ég ráðgerði að fara að vinna eitthvað, jafnvel bara hlutastarf upp úr áramótum og vonaðist til þess að barnið mitt kæmist fljótlega til dagmömmu a.m.k. í kringum eins árs aldurinn. En ég er því miður ekki að sjá að það gangi eftir, við fáum líklega pláss næsta haust sem er þá ágúst 2018 við fimmtán mánaða aldurinn og eru réttindi úr fæðingarorlofssjóði níu mánuðir og í okkar tilfelli þýðir það algjöran tekjumissir annars foreldris í lágmark sex mánuði.“

Komst ekki inn á leikskóla fyrr en 28 mánaða gamalt
„Annað barnið mitt komst inn á leikskóla 28 mánaða gamalt sem er of seint að mínu mati, 18-20 mánaða aldurinn hentar vel til að komast á leikskóla en ég sé fram á það að hitt barnið mitt komist inn um þann aldur eða ég vona það að minnsta kosti, það er á biðlista hjá Krílakoti og þær eru að hætta en ég hef ekki sótt um hjá dagmömmunum sem eru starfræktar við Grunnskólann. Hef ekki fengið staðfest að það komist inn á leikskóla við tuttugu mánaða aldurinn og krossa putta. Ég hef ekki upplifað þessa dagmömukrísu fyrr en núna og það verður að fara að gera eitthvað í leikskóla og dagmömmumálum hér í Grindavík.“

Bent á að leita til félagsmálayfirvalda
„Grindavíkurbær gefur sig út fyrir að vera fjölskylduvænn bær en hversu fjölskylduvænn getur hann verið þegar foreldrar fá ekki vistun fyrir börnin sín og geta þar af leiðandi ekki unnið eða stundað nám? Yngsta barnið okkar er að nálgast eins árs aldurinn og við bíðum enn eftir að komast inn til dagmömmu. Við sóttum um á meðgöngunni á báðum stöðum og við erum ekki enn komin með svör hvort barnið okkar komist til dagmömmu þar sem að það stendur allt og fellur með það hversu mörg börn fara inn á leikskóla í hverju holli. Þegar kom í ljós að langt væri í land með dagvistun þá ákvað ég að athuga hvort bærinn myndi borga foreldrum sem þurfa að vera heima þar sem að ég hef heyrt að önnur bæjarfélög geri það. Svörin sem ég fékk voru þau að Grindavíkurbær gerir það ekki og var mér bent á að leita til félagsmála ef ég væri í vandræðum. Við þurfum ekki að leita til þeirra en róðurinn er samt sem áður þyngri þegar annað aðilinn leggur núll til málanna um hver mánaðarmót og það mun ekki ganga endalaust.“


Langir biðlistar
„Daggæsla fyrir ungabörn er slæm að mínu mati hér í Grindavík, það er mikill biðlisti bæði hjá dagmömmunum og í leikskóla. Mér finnst að það þurfi að gera eitthvað í þessum málum, annað hvort að fá betra húsnæði fyrir dagmömmur til að starfa eða opna ungbarnaleikskóla. Ég held að það myndi leysa þessi mál hér í Grindavík og flestir myndu fá pláss fyrir börnin sín. Við unga fólkið erum að reyna að safna pening til að geta keypt okkur húsnæði en ég er ekki að sjá hvernig við eigum að ná því þegar annað okkar kemst ekki út á vinnumarkaðinn ef barnið okkar kemst ekki til dagmömmu.“

Allir þeir foreldrar sem Víkurfréttir ræddu við höfðu miklar áhyggjur af stöðunni eins og hún er í dag og voru fjárhagsáhyggjur ofarlega hjá þeim öllum. Mikið tekjutap verður við það þegar aðeins annað foreldrið er fyrirvinnan og biðlistarnir eru of langir, bæði hjá dagmömmum og hjá leikskólum að mati foreldra. Allir voru þeir sammála því að staðan sé óboðleg eins og hún er í dag og það þurfi að leysa vandann strax, þetta sé vandamál sem þoli enga bið.

Í fundargerð félagsmálanefndar Grindavíkur þann 16. nóvember kemur fram bókun:
1602104 - Daggæsla í heimahúsi: Tillögur um eflingu þjónustu
Lagt er fram minnisblað um stuðning við daggæslu í heimahúsum í sveitarfélaginu. Félagsmálanefnd áréttar enn og aftur nauðsyn þess að styðja við starfsemi dagforeldra í sveitarfélaginu með það fyrir augum að fjölga og viðhalda daggæslurýmum í sveitarfélaginu. Nefndin leggur til að sveitarfélagið byggi húsnæðisklasa við Hraunbraut sem tryggi allt að 30 daggæslurými til útleigu fyrir dagforeldra.