Harðorð mótmæli vegna þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd
Á fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar 14. ágúst lagði Margrét Þórarinsdóttir, bæjarfulltrúi Umbótar, fram bókun fyrir hönd Umbótar og Sjálfstæðisflokksins þar sem harðlega var mótmælt ákvörðun ríkisins um að segja einhliða upp samningi um þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd.
Í bókuninni kemur fram að með þessari ákvörðun skilji ríkið sveitarfélagið eftir með tugmilljóna skuldbindingar í formi húsaleigusamninga, launa og rekstrarkostnaðar sem ekki sé hægt að slíta með svo skömmum fyrirvara.
„Umbót og Sjálfstæðisflokkurinn hafa ávallt verið mótfallin þessum samningum og nú kemur enn einu sinni í ljós að ríkinu er ekki treystandi fyrir hagsmunum sveitarfélagsins,“ segir í bókuninni. Þar er jafnframt krafist að ríkið bæti sveitarfélaginu þann kostnað sem uppsögnin hefur í för með sér, enda beri ríkið ábyrgð á þjónustunni og að ganga frá henni á ásættanlegan hátt. Undir bókunina skrifuðu Margrét Þórarinsdóttir (Umbót), Margrét Sanders, Guðbergur Reynisson og Helga Jóhanna Oddsdóttir (Sjálfstæðisflokkur).






